141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur fyrir andsvar hennar. Það gætir mikilla andstæðna í svari hennar. Í fyrsta lagi vil ég segja að það náðist svo sem ekkert rosalega mikil sátt í stjórnlagaráði. Þeir aðilar sem sátu þar ákváðu að ef það yrði ágreiningur yrðu samt greidd atkvæði með hverri grein fyrir sig, þrátt fyrir að margir hafi verið mótfallnir ýmsum ákvæðum. Þetta var gert til þess að þetta liti betur út því að það var talað um að það væru svo miklar deilur í þinginu. Þetta var bara vinnuregla sem komið var á fót í stjórnlagaráði. Það var mikill innbyrðis skoðanaágreiningur í stjórnlagaráði og það kemur vel fram í vinnuskjali frá þeim hvernig atkvæðagreiðslurnar fóru. Það fór ekkert allt samhljóða í gegn með hallelúja, oft munaði tveimur og þremur og jafnvel einu atkvæði við sumar lagagreinar. Það var ákvörðun sem stjórnlagaráð tók að allir skyldu segja já þegar plaggið var borið upp fyrir rest. Það var nú öll sáttin, virðulegi þingmaður.

Það er munur á sitjandi alþingismönnum og þeim sem sátu í stjórnlagaráði. Stjórnlagaráðsmenn gátu náttúrlega tekið þessa vinnureglu upp hjá sér og ekkert við það að athuga á meðan við, kjörnir þingmenn, erum bundin af sannfæringu okkar og sverjum eið að stjórnarskránni um að við förum með atkvæði okkar samkvæmt sannfæringu okkar. Við getum aldrei gert svona samninga í bakherbergjum, eitthvert ríkjandi samkomulag um að ef einhver okkar eru á móti tilteknu máli munum við samt greiða atkvæði með því til að sýna samstöðu. Þannig vinnubrögð tíðkast ekki á löggjafarþingi.

Varðandi það sem þingmaðurinn fór yfir að alla lögfræði vantaði í plaggið þá er búið að breyta því mikið, gera um það bil 100 breytingartillögur við það (Forseti hringir.) þannig að ýmsir hafa komið að því, en ég var að tala um upphaflega plaggið.