141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:29]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við alþingismenn erum að sjálfsögðu í annarri stöðu en þeir sem sátu í stjórnlagaráði, við sitjum á löggjafarsamkomunni og höfum ákveðið hlutverk sem slíkir. En ég held eftir sem áður að við gætum lært ýmislegt af þeirri umræðuhefð sem skapaðist í stjórnlagaráðinu. Þar fór fram rökræða, menn mæltu með sjónarmiðum sínum og hlustuðu á það sem sagt var á móti og síðan, þegar menn sáu að þeir komust ekki lengra, greiddu þeir atkvæði og hinn lýðræðislegi meiri hluti hafði betur. Það er í raun og veru ekkert athugavert við það.

Mér finnst líka dálítið sérstakt að heyra hv. þingmann tala um sannfæringuna, mér finnst hv. þingmaður tala eins og við getum í raun og veru aldrei komist að neinum málamiðlunum. Við eigum sem sagt alltaf að halda fast og ákveðið við sannfæringu okkar, burt séð frá því að hlusta á rök með og á móti og nálgast hvert annað, sem mér finnst hafa verið mjög hávær ósk um, t.d. frá þingmönnum Framsóknarflokksins. Mér finnst það mjög sérstakt, ég hef þá eitthvað misskilið í þessu ef meiningin er ekki sú að við hlustum á rök með og á móti. Á endanum getur vel verið að við komumst að niðurstöðu sem er kannski ekki akkúrat óskaniðurstaða hvers og eins. Við komumst að niðurstöðu sem við teljum vera almenningi á Íslandi fyrir bestu. Við sitjum nefnilega í umboði þjóðarinnar.