141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í byrjun gera grein fyrir því á hvaða stað þetta mál er miðað við umræðurnar í dag og á miðvikudaginn, þ.e. hvernig þetta mál er unnið. Lagasetning á Alþingi á að vera vönduð. Lagasetning á Alþingi á að vera svo vönduð að tæpast þurfi að höfða dómsmál vegna ágalla í lögum. Þess vegna verður æðsta plaggið, stjórnarskrá Íslands, að vera einstaklega vel úr garði gert og þess vegna verður lagatexti í stjórnarskrá að vera skýr. Texti stjórnarskrárinnar á að vera eins skýr og auðskilinn og kostur er þannig að þeir sem njóta réttinda samkvæmt stjórnarskrá viti hver sá réttur er með því að lesa hana.

Við erum með í gildi stjórnarskrá lýðveldisins, nr. 33/1944, hún rúmast í þessu litla kveri. Gera þarf nokkrar breytingar á stjórnarskránni og bæta ákveðnum ákvæðum inn í hana og Framsóknarflokkurinn hefur ætíð talað fyrir því. Við höfum auðlindaákvæðið í fararbroddi og leggjum áherslu á að það komi inn fyrir komandi alþingiskosningar.

Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, hvað varðar þessa vinnu sem tekið hefur allt þetta kjörtímabil með útafakstri í ýmsar áttir á leiðinni að breytingum á stjórnarskránni, að nú þegar þessi orð eru töluð liggja fyrir þinginu 550 blaðsíður, þ.e. texti þessa frumvarps, greinargerðir, nefndarálit og önnur fylgiskjöl. Ég spyr: Hvar er græna hugsunin sem Vinstri grænir voru kosnir á þing út á? Á ekki að vernda regnskógana? Það er alveg fáheyrt hvernig þessu máli er komið.

Þegar venjulegt lagafrumvarp er lagt fram á Alþingi kemur það fram í frumvarpsformi með greinargerð þar sem hver grein fyrir sig er útskýrð og oft og tíðum er líka inngangur í greinargerðinni. Það er það sem á lagamáli er kallað „lög og lögskýringargögn“ þegar búið er að samþykkja frumvarpið. Það eru þau gögn sem dómstólar fara yfir og lesa skapist ágreiningur um lög fyrir dómstólum. Sérstaklega er mikilvægt að þessi lögskýringargögn séu vönduð þegar um stjórnarskrána er að ræða, vegna þess að um er að ræða meginrétt einstaklinga í samfélagi, réttur byggður á stjórnarskrá verndar einstaklinga gagnvart ofríki stjórnvalda, ofríki mismunandi grófra stjórnvalda. Á þessu kjörtímabili hafa fallið dómar í Hæstarétti um að brotið hafi verið á rétti einstaklinga samkvæmt stjórnarskrá og er ég þá að vísa í Árna Páls-lögin svokölluðu. Verndin um afturvirkni laga varð virk og fór fyrir dómstóla og viðkomandi vann það mál vegna þess að í stjórnarskrá er ákvæði sem verndar rétt borgaranna, ákvæði um að ekki megi setja á Alþingi lög sem virka aftur fyrir sig. Við höfum því nýtt dæmi um það hve rétturinn í stjórnarskránni er mikill.

Í því ljósi er afar einkennilegt, út af því að ég legg mjög mikið upp úr því að stjórnarskráin sé æðsta plagg samfélags okkar, að þurfa að horfa upp á vinnubrögðin sem viðhöfð eru af meiri hlutanum sem líklega er orðinn minni hluti, að á milli 1. og 2. umr. þurfi að koma svo veigamiklar breytingartillögur — ásamt alls konar útúrsnúningum og útúrdúrum og tilraunum til að útskýra hvað átt er við með upphaflega frumvarpinu, sem á hugsanlega í framtíðinni að verða lagatexti — að það sé ekki nokkur einasta leið fyrir dómstóla að komast til botns í því hver vilji löggjafans raunverulega er. Það hefur nú þegar komið fram að eins og frumvarpið stendur í dag passar greinargerðin ekki við það því að hún er byggð á sagnfræði og heimspeki og ýmiss konar útúrdúrum sem útskýrir hver var hugur stjórnlagaráðs. Það er að mínu mati alveg ný lögfræði að byggja greinargerð með frumvarpi á þessum grunni. Þetta gengur ekki í lagasetningu árið 2013 og bent hefur verið á að skrifa þurfi nýja greinargerð með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þá komum við að vanda dómstóla við að túlka þessa stjórnarskrá verði hún keyrð í gegnum þingið, að fara fyrst í upphaflegu greinargerðina og reyna að finna lögskýringargögn þar og svo komi nokkurs konar ný greinargerð, eins og boðað hefur verið á milli 2. og 3. umr., með frumvarpinu í framhaldsnefndaráliti, milli 2. og 3. umr. Þegar dómstólar taka mál til umfjöllunar er fyrst farið í frumvarpstextann, síðan í greinargerðina, síðan í meirihlutaálit þeirra sem eru með málið, síðan í minnihlutaálit og ef ekki er komin niðurstaða um það hver vilji löggjafans hafi verið er stundum farið í ræður framsögumanna.

Núna er ferillinn sá að yrði þetta að stjórnarskrá Íslands yrði fyrst farið í lagatextann, síðan í greinargerð sem byggð er á sagnfræði og heimspeki, síðan yrðu það nefndarálit meiri hlutans og minni hlutans, síðan yrði það framhaldsnefndarálit með nokkurs konar greinargerð sem verið er að boða, og svo framhaldsnefndarálit minni hluta og meiri hluta og svo þingræður. Og við erum að tala um stjórnarskrána. Við erum að tala um stjórnarskrána sem er grunnur að allri lagasetningu, því að öll lög sem sett eru í landinu eiga að byggja á þeirri stjórnarskrá. Þetta eitt sýnir að málið er ónýtt. Þetta eitt sýnir að frumvarpið er ekki boðlegt Alþingi Íslendinga. Það er ekki hægt að fara með þetta svona í gegnum þingið, virðulegi forseti.

Að mínu mati þyrfti að byrja algjörlega upp á nýtt. Það er tillaga mín í nefndaráliti sem ég skilaði — ég skipa 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — þar sem ég fer yfir þetta. Það þarf að fara af stað með breytingar á núgildandi stjórnarskrá því að umboðið náði aldrei til þess að semja ætti nýja stjórnarskrá. Við þurfum að fara af stað með nýtt frumvarp sem gerir tillögur að breytingum á stjórnarskránni, ýta þessum 550 blaðsíðum til hliðar, skapa sátt um það sem við þurfum að gera til að breyta stjórnarskránni og þar eru undir auðlindaákvæðið, ákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá, og kannski eitthvað fleira sem við framsóknarmenn erum tilbúnir til að skoða miðað við áherslur hinna flokkanna.

Þessu stöndum við frammi fyrir ef við ætlum að gera breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningar. Tíminn er hlaupinn í burtu. Við erum reiðubúin til að setjast niður sé til þess vilji, við framsóknarmenn, til að bjarga því sem bjargað verður í þessu máli. Nú er staðan orðin þannig, virðulegi forseti, þegar svo lítill tími er til þingloka að allir verða að leggjast á eitt, sé til þess vilji, til að bjarga því sem bjargað verður hjá ríkisstjórninni. Viljinn er það ríkur innan Framsóknarflokksins, að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá, að við erum tilbúin til að koma til móts við ríkisstjórnina og bjarga því sem bjargað verður, svo að það sé alveg skýrt.

Sumir telja að það sé pólitískt ekki klókt að rétta þessari vinstri stjórn, sem hefur verið mjög verklaus á kjörtímabili sínu í öðru en því að hækka skatta og fjölga skattstofnum, hjálparhönd en við metum það þannig að svo brýnt sé að setja auðlindaákvæðið inn í stjórnarskrá, og vernda auðlindir okkar, fundnar og ófundnar, fyrir ásælni erlendra ríkja og Evrópusambandsins, að það sé forgangsverkefni sem við verðum öll að ganga í.

Við skulum sjá hvað helgin ber í skauti sér og næsta vika. Tíminn er á þrotum. Ég ítreka orð mín: Hugsa þarf málin upp á nýtt, viðurkenna staðreyndir. Málið er ónýtt. Þeir sem þurfa að fara fremstir í flokki þar eru forustumenn ríkisstjórnarinnar. Ég vænti mikils af nýjum formanni Samfylkingarinnar, hann er lögfræðimenntaður, ég vænti þess að hann leggi fram sáttargjörð í þessu máli. Við þetta verður ekki unað. Annaðhvort er að gleyma þessu alveg eða að sest verður niður og það lagað sem á að laga og þarf að laga.