141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé jafnvel fjórða ræða mín við 2. umr., en ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir fyrirspurnina. Ég tel að hún eigi eftir að lesa nefndarálit sem ég fór yfir, frá mér sem skipa 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, því að þar kemur fram hvers vegna ekki séu lagðar fram breytingartillögur og hvers vegna ekki er hægt að ræða þetta efnislega. Hér stendur, með leyfi forseta, ef hv. þm. Margrét Tryggvadóttir vildi hætta að flissa svo að ég heyri í sjálfri mér:

„Annar minni hluti telur þetta þingmannafrumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands svo gallað að ekki sé gerlegt að leggja fram breytingartillögur við það án þess í raun að skrifa nýtt frumvarp með fullbúinni greinargerð.“

Þetta stendur þarna og ég hvet þingmanninn til að lesa þetta betur yfir ef hún hefur ekki áttað sig á hvað þetta þýðir. Þó að ég sé þingmaður er það ekki hlutverk mitt að gera breytingartillögur og ræða hverja grein efnislega, því að ég tel mig ekki hafa heimild til að skrifa nýja stjórnarskrá með greinargerð. Ég tel að það sem þurfi hér á landi sé að gera breytingar á þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi. Ég held að stjórnvöld ættu að sýna gott fordæmi með því að fara að núgildandi stjórnarskrá áður en hugsað er um að fara að skrifa nýja.