141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

orkufrekur iðnaður á Bakka.

[13:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og ég fagna því sem hann segir, að hann gerir ráð fyrir að nokkuð mikil sátt sé um að byggja atvinnulífið á fjölbreyttum grunni. Þegar maður skoðar umræðu á Alþingi um atvinnuuppbyggingu nokkur ár aftur í tímann, og ekki einu sinni sérlega langt aftur í tímann, virðast hv. þingmenn gjarnan hafa horft á stærri og einsleitari lausnir. En ég er sammála hv. þingmanni um að það kann að vera orðin breyting þar á og fólk horfir nú til fjölbreyttari leiða. Í mínu tilfelli hef ég sérstaklega rætt um mikilvægi nýsköpunar skapandi greina og þekkingar og hugvits inn í atvinnulíf okkar.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka er það svo að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem stundum hefur andæft stóriðjuframkvæmdum, og ég reikna með að hv. þingmaður sé að vísa til þess, hefur aldrei lýst sig mótfallið öllum iðnaðarframkvæmdum. Þessi framkvæmd byggir á orku sem er í nýtingarflokki samkvæmt nýsamþykktri rammaáætlun. Hún skapar tiltölulega mikinn arð — svo ég beri það saman þá skapar hvert megavatt tveimur til þremur störfum meira en t.d. starf við álverið miðað við megavatt, svo dæmi sé tekið, því að það eru þær framkvæmdir sem við höfum verið hvað gagnrýnust á. Vissulega eru hins vegar ákveðin umhverfisáhrif af svona framkvæmd og á eftir að fara fram mat á umhverfisáhrifum af henni. Mér finnst mjög mikilvægt að það verði gert með faglegum hætti. Þar má búast við að bent verði á nokkra losun gróðurhúsalofttegunda sem er þá eðlilegt að fari inn í það kerfi sem við höfum barist fyrir hér, þ.e. að svona starfsemi njóti ekki sérákvæða að því leyti heldur þurfi þá að fá heimildir og kaupa sér heimildir til að fylla upp í losun.

En ég ítreka það sem er í stefnu flokks míns að fjölbreytni skiptir máli og iðnaður er hluti af þeirri fjölbreytni.