141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

aðgangur fjárlaganefndar að gögnum.

[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því í þingsölum hvaða vinna fer nú fram í fjármálaráðuneytinu hvað varðar svokölluð opin gögn. Ég tel mjög mikilvægt að við stígum stór skref á næstu vikum og missirum í þá átt að opna betur bókhald ríkisins fyrir almenningi. Það skapar traust á því sem við erum að gera, það býr líka til aðhald almennings með því sem við gerum við skattfé hans og er að öllu leyti að mínu mati til mikilla bóta. Núna er í gangi starfshópur sem vinnur að því að fara yfir hvaða fjárhagslegar upplýsingar hins opinbera er hægt að birta. Ég mun fá niðurstöðu úr þeirri vinnu á næstu vikum og vonandi getum við stigið fyrstu skrefin bráðlega í að birta gögn um fjárhagsleg málefni hins opinbera.

Það sem hv. þingmaður nefnir er umræða sem við tókum fyrir jólin. Á þeim tíma var verið að óska eftir því að fá aðgang að svokölluðum minnisblöðum, vinnugögnum, í fjárlagavinnunni á milli ráðuneyta. Niðurstaða okkar var sú að það væri heimilt undir trúnaði og þingmönnum væri frjálst að fá aðgang að þeim gögnum í fjárlaganefnd. En það er rétt að því miður barst það svar of seint til hv. þingmanns til að hann gæti nýtt sér það í það skipti. Ég baðst velvirðingar á því í haust og geri það aftur hér. Ég vonast til að sá úrskurður standi næsta haust þannig að fjárlaganefnd geti fengið aðgang að þessum minnisblöðum þó að undir trúnaði sé. Ástæðan fyrir því að þau eru undir trúnaði er sú að þetta eru vinnugögn, þetta er ekki niðurstaða. Við notum mikið af vinnugögnum áður en við komumst að niðurstöðu. Niðurstaða okkar var sú að hv. þingmaður gæti séð þetta en þó undir þessum trúnaði.