141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

grásleppuveiði.

[13:55]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Skiljanlega eru menn ekki hressir með það sem við blasir nú við upphaf grásleppuvertíðarinnar. Það er af þeirri einföldu ástæðu að í ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar frá síðastliðnu vori er dregin upp mjög dökk mynd af ástandi stofnsins. Ef farið væri nákvæmlega að þeim tillögum sem þar eru hefði átt að úthluta 13 daga upphafskvóta. Það fannst mér ansi naumt þannig að með tilliti til þess líka að gerðar voru nokkrar breytingar á netatakmörkunum var ákveðið að leggja upp með 20 daga. Tekið hefur verið skýrt fram að sú upphafsráðstöfun verður endurskoðuð um 20. mars um leið og Hafrannsóknastofnun er komin með vísbendingar úr rallinu.

Það er út af fyrir sig rétt og það viðurkenna allir að talsverðum vandkvæðum er bundið að meta stærð og veiðiþol grásleppustofnsins út frá þeim vísbendingum. En þær eru út af fyrir sig eins ár eftir ár, grásleppan mætir inn á grunnmiðin á svipuðum tíma árlega, og Hafrannsóknastofnun telur sig þrátt fyrir allt geta séð tilteknar vísbendingar út úr því og notar þær meðal annars í sinn grunn.

Það hefur síðan haft áhrif á þetta, án þess að maður tali kannski beinlínis hátt um það, að því miður er mikil sölutregða á hrognum og upp undir þriðjungur af framleiðslu síðustu vertíðar var óseldur þegar ákvörðunin var tekin á dögunum. Bundnar hafa verið vonir við það að þegar menn sjá að um verulega minni sókn verður að ræða á þessari vertíð lifni yfir markaðnum og eitthvað af birgðunum seljist. Mönnum væri takmarkaður greiði gerður með því að leyfa mikla veiði í ár ef það verður til þess að yfirfylla þegar mettaðan markað og lækka verð enn frekar. Það var líka undirliggjandi við þessa ákvörðun að staðan á markaðnum er því miður þannig að fyrst þyrftu að seljast upp birgðir frá fyrra ári og einhver eftirspurn að myndast til þess að menn gætu að minnsta kosti selt á sæmilegu verði það sem þeir veiða í ár.

Ég tek undir að það er ákaflega ánægjulegt hvernig markaður fyrir fiskinn sjálfan hefur byggst upp og það er (Forseti hringir.) vissulega tilfinnanlegt ef við þurfum að hörfa eitthvað af þeim markaði vegna minni veiða í ár. En þetta eru aðalástæður þess að svona var lagt upp og þetta verður allt saman endurskoðað eftir um mánuð.