141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

forkaupsréttur og framsal í sjávarútvegi.

[14:00]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki örugglega byrjaður að undirbúa nýja lagasetningu varðandi forkaupsrétt og framsal í sveitarfélögum landsins, sjávarútvegsplássunum. Þessi lög voru sett í tíð hæstv. ráðherra árið 1989/1990 og þar var tryggt að heimaaðilar hefðu tíma til að ganga inn í samninga og leysa mál varðandi hverja byggð en nú kann þetta að vera í uppnámi vegna málsóknar sem stendur vegna sölunnar á Bergi-Hugin frá Vestmannaeyjum.

Ef það fjarar undan þessum lögum er allt í uppnámi, þá er allt öryggi sjávarbyggðanna í uppnámi, og allur rekstrarþáttur sjávarútvegsins á landinu öllu. Þess vegna skiptir miklu máli, hæstv. ráðherra, að vita hvort ráðherrann er ekki þegar byrjaður að tryggja þessa þætti. Hann átti sæti í umræddri ríkisstjórn 1988/1989 ásamt hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra og þetta atriði um framsalsréttinn var sett á í þeirra tíð þótt þau segi gjarnan að sjálfstæðismenn hafi sett þetta á; þau mættu hins vegar hrósa sér af þessu og þakka fyrir að hafa gert þetta því að þetta breytti öllu í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins um land allt.

Ég spyr hvort það sé ekki alveg klárt að ráðherra sé þegar byrjaður að vinna í þessu svo að ekki verði neitt tómarúm því að það kæmi mjög í opna skjöldu öllum rekstri sjávarútvegs og rekstri byggðarlaganna á landinu ef þetta er ekki tryggt. Þetta er lykilatriðið í sjávarútvegsstefnunni.