141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

forkaupsréttur og framsal í sjávarútvegi.

[14:04]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra fylgist grannt með þessu en ég held að það sé lykilatriði að hefja nú þegar vinnu við gerð laga ef til þyrfti að taka á þeim nótum sem hæstv. ráðherra talar um. Forkaupsrétturinn er grundvallaratriði fyrir hverja einustu sjávarbyggð landsins. Enginn sjávarbyggð í landinu á að þurfa að treysta á það að einhverjir örfáir menn, sem eru búnir að reka stórt fyrirtæki, geti ákveðið upp á einsdæmi hvort lífvænlegt verði í sjávarplássinu eða ekki. Engin sjávarbyggð þolir það. Þess vegna skiptir öllu máli að vera á verði í þessu. Þetta var tekið upp í framhaldi af stefnu fiskiþings og sett mjög skýrt og skorinort. Ef meinbugir eru á lögunum núna verður að bregðast við strax og undirbúa að tryggja að þessi réttur standi fyrir sjávarpláss landsins.