141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[14:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Ég vil segja að auðvitað væri best ef við værum í þeirri stöðu að þurfa ekki slík úrræði. Það væri ákjósanlegasta fyrirkomulagið að vera með þannig rekstrarumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf að ákjósanlegt og eftirsóknarvert væri að fjárfesta þar, bæði fyrir innlenda og erlenda aðila. Að sjálfsögðu ætti það að vera okkur keppikefli að búa þannig um hnútana í rekstrarumhverfi okkar að þeir sem ættu fjármuni, hvort sem það væru lífeyrissjóðir, einstaklingar, fyrirtæki eða hver sem það væri, sæju sér hag í því að fjárfesta í atvinnulífinu hér á landi til að efla það. Það er auðvitað draumsýnin og það sem við ættum að stefna að.

Sannleikurinn er sá að eins og því ástandi hefur verið formælt var svo komið að fyrirtæki sáu sér hag í því í ýmsum tilvikum að setja sig niður hér á landi fremur en að vera skrásett erlendis af því að þau litu þannig á að rekstrarumhverfið, skattalega umhverfið, væri þeim hagfelldara. Það bjó út af fyrir sig til tekjur, í sumum tilvikum vinnu en alla vega tekjur fyrir ríkissjóð. Það eru ýmis dæmi um að slík fyrirtæki hafi greitt talsvert fé í ríkissjóð en hafi hins vegar á síðari árum kosið að flytja sig um set eftir þær skattbreytingar sem hafa verið gerðar.

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að við beitum ívilnunum á afmörkuðum sviðum og stærstu og þekktustu dæmin í sögunni eru álverin. Þau voru bókstaflega reist vegna þess að við bjuggum til sérstakt skattumhverfi fyrir þau. Það var ekki bara baráttan um orkuverðið heldur líka baráttan um skattumhverfið sem réð því hvar stóru alþjóðlegu fyrirtækin settu niður starfsemi sína. Það var ekki fyrr en við beittum báðum aðferðunum, að geta kannski boðið samkeppnisfært raforkuverð á annan veginn og skattalegum ívilnunum á hinn veginn, að það tókst að setja af stað þá erlendu fjárfestingu sem hefur verið mest áberandi í erlendri fjárfestingu á Íslandi og er fjárfestingin í stóriðjufyrirtækjunum, einkanlega álfyrirtækjunum.

Þegar þar var komið sögu og breytingar höfðu átt sér stað í skattalegu umhverfi atvinnulífsins var í ýmsum tilvikum orðið óhagkvæmara fyrir álfyrirtækin að styðjast við þá fjárfestingarsamninga sem höfðu verið gerðir við þau en að búa bara við íslenska skattumhverfið og það er út af fyrir sig mjög áhugavert. Nú hefur því ástandi hins vegar verið formælt mjög mikið og það talið hafa valdið launamun og verið of ívilnandi fyrir fyrirtækin. Því er nauðsynlegt að halda til haga. Það var engu að síður það sem um var að ræða.

Það sem við viðurkennum í raun og veru þegar svona frumvarp er lagt fram er að þær nýfjárfestingar sem við viljum að eigi sér stað á Íslandi verða ekki í því skattalega umhverfi sem við höfum búið til fyrir fyrirtæki okkar. Það er dálítið bitur staðreynd en svona er þetta. Við teljum ekki líklegt að hér verði nýfjárfestingar af því tagi sem við erum að tala um, sem eru rammaðar inn í lögunum um ívilnanir vegna fjárfestinga á Íslandi, þær fjárfestingar verða ekki í því skattalega umhverfi sem við höfum kosið að búa við hér á landi og allir þekkja.

Við þekkjum það líka í öðrum geira, kvikmyndagerðinni. Þar er um að ræða verulega endurgreiðslu á kostnaði, 20%, og sú endurgreiðsla fer fram óháð því hvort gert er ráð fyrir henni í fjárlögum eða ekki. Ef erlent kvikmyndafyrirtæki kýs að taka upp kvikmynd á Íslandi á það sjálfkrafa rétt á ávísun úr ríkissjóði fyrir ákveðnum kostnaði sem hefur fallið til hér á landi, eftir þeim reglum sem kveðið er á um þar, og þá breytir engu hvort Alþingi, sem fer auðvitað með fjárveitingavaldið, hefur ákveðið að sú upphæð skuli greidd. Lögin eru ótvíræð í þeim efnum. Raunar hefur komið fram hjá talsmönnum íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem hafa verið umboðsmenn erlendu fyrirtækjanna að það sé um tómt mál að tala að fá hingað erlenda kvikmyndamógúla til að taka upp bíómyndir sínar ef þeir geti ekki gengið út frá því að nánast um leið og þeir leysa landfestar frá Íslandi berist þeim tékkinn í hús. Ef farið verður að láta það ráðast af því sem almennt ræðst í fjárlögunum okkar, að fjárlagatalan ráði, en fresta verði hins vegar verkefninu eða greiðslunni — ef það fyrirkomulag verður tekið upp væri öll uppbygging búið spil sem og koma allra stjórstjarnanna sem hafa komið hingað til landsins, einkanlega að sumarlagi, og skreytt dálítið mannlíf okkar. Fyrir utan auðvitað það sem er mikilvægast af öllu og er að hér hafa orðið umsvif í kringum þetta. Það hefur orðið til ný þekking og viðspyrna fyrir unga kvikmyndagerðarmenn. Hér hafa orðið ýmis umsvif í kringum ferðaþjónustu, þótt þau hafi kannski orðið of mikil yfir háönnina fyrir minn smekk.

Það segir okkur allt að svarið við þeirri spurningu hvernig við byggjum upp atvinnulíf er ekki að leggja á mikla skatta. Það felst miklu frekar í því að búa til skattalegt umhverfi sem geri mönnum kleift að fjárfesta, gerir það eftirsóknarvert fyrir menn að fjárfesta og hvetur þá til þess og að búa þannig til tekjur, enda hafa kvikmyndagerðarmennirnir okkar verið óþreytandi við að sýna fram á með mörgum rökum að þegar upp er staðið græði allir á þessari ívilnun ríkisins, ríkissjóður, sveitarfélögin, almenningur og fyrirtækin. Fyrir utan það verðum við einfaldlega glaðari í sinni við að fá stjörnurnar hingað til að skreyta mannlíf okkar, eins og ég nefndi áðan.

Við erum í rauninni að segja það sama um nýfjárfestingar, að skattumhverfið sem við erum í í dag sé of íþyngjandi fyrir þá gerð af nýfjárfestingu sem við erum að breyta lögunum um. Þegar við skoðum árangurinn af þeirri löggjöf sem frumvarpið er breyting á verður ekki hægt að segja að hann sé mjög mikill, metinn í fjármunum. Hann er þó dálítill og ekki ástæða til að gera lítið úr því. Það sem er áhugavert í því sambandi, sem ég held þó að margir geri sér ekki alveg grein fyrir, er að ívilnunin er ekki bundin við erlenda fjárfestingu. Hér getur líka verið um að ræða fjárfestingu íslenskra aðila og fjárfestingu sem er ekki endilega bundin við það sem menn mundu kalla í daglegu tali þekkingariðnað, nýsköpun, a.m.k. miðað við skilninginn sem menn leggja í það hugtak.

Nýjasta verkefnið sem mér er kunnugt um sem fékk einmitt ívilnun á grundvelli gildandi laga í þeim efnum er sjávarútvegsfyrirtæki eða öllu heldur fiskvinnslufyrirtæki í Sandgerði sem hóf starfsemi sína, hefðbundna fiskvinnslu, undir forustu þaulreynds manns úr sjávarútveginum. Það er sannarlega ástæða til að fagna því, ekki síst á því svæði sem þarna um ræðir þar sem atvinnuleysi hefur verið mikið og langvinnt. En það er ástæða til að undirstrika það engu að síður.

Ég held að það sé líka ástæða til, úr því að við erum að byggja upp þetta kerfi, að leggja í kynningu meðal aðila í atvinnulífinu og alveg sérstaklega á landsbyggðinni til að gera sér grein fyrir því hvaða tækifæri kunni að felast í því. Við höfum atvinnuþróunarfélög úti um allt land og ég hefði talið að ástæða væri fyrir Íslandsstofu og fyrir þá sem halda utan um málið að gera sér ferð um landsbyggðina og funda með atvinnuþróunarfélögunum þar sem þeir mundu kalla fyrir sig fulltrúa úr atvinnulífinu til að átta sig á því hvað um er að ræða og hvaða tækifæri felast í því. Við þekkjum það úr öllum þeim sjóðum og öllum þeim ívilnunarreglum sem við höfum stundum sett í gegnum tíðina að hlutur landsbyggðarinnar í þeim efnum er alltaf miklu rýrari en efni standa til, mun rýrari en hlutfallsleg þátttaka landsbyggðarinnar er í atvinnuþróunarstarfsemi og það helgast að einhverju leyti af samsetningu atvinnulífsins.

Ég vil þó líka halda því fram að þarna sé einhver múr, einhver glerveggur eins og við sjáum í auglýsingum um launajafnrétti, eitthvert glerþak sem er líka stundum talað um í umræðunni um launajafnrétti og veldur því að landsbyggðin verður einhverra hluta vegna mjög afskipt þegar kemur að því að deila út þeim molum úr ríkissjóði og ívilnunum sem lögin kveða á um.

Frumvarpið er ekki mikil breyting í sjálfu sér en það skiptir máli. Í fyrsta lagi er verið að lækka tekjuskattshlutfall þeirra aðila sem falla undir lögin niður í 18%. Skatthlutfallið, eins og við vitum, hefur á þessu kjörtímabili hækkað í stórum skrefum hjá atvinnufyrirtækjum og er núna 20%. Ég held að það hafi verið komið niður í 12% þegar það var lægst, það var 15% árið 2009 og er núna komið í 20%. Auðvitað skiptir það máli. Þótt það sé því miður svo að yfirleitt er ekki mikill tekjuskattur eða hagnaður af fyrirtækjum fyrsta kastið mun það skipta máli ef vel gengur þegar fram í sækir.

Í öðru lagi er lagt til að félagi sem fellur undir löggjöfina skuli veitt undanþága frá stimpilgjöldum. Það skiptir miklu máli. Þarna er um að ræða stimpilgjöld á lánapappíra og slíka hluti sem eru oft kostnaðarsamir. Það er kannski ekki þúfan sem veltir hlassinu en skiptir máli þarna og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að þau fyrirtæki fái afslátt af fasteignaskatti. Sá afsláttur er núna 30% en verður 50%. Síðast en ekki síst er gert ráð fyrir því að afsláttur af almennu tryggingagjaldi verði 50% í stað 20%. Það skiptir líka miklu máli, þetta er hvati til að ráða fólk. Tryggingagjaldið er auðvitað gjaldtaka á launasummunni og hefur að öllu jöfnu þær afleiðingar að draga úr vilja, hvata og getu fyrirtækjanna til að ráða starfsfólk, en með þessum hætti er þó verið að viðurkenna þær afleiðingar. Með því að veita afsláttinn er líklegra að menn ráði fólk.

Í því sambandi er ástæða til að nefna að eftir efnahagshrunið 2008 hafði atvinnulífið frumkvæði að því að tryggingagjaldið var hækkað til að standa straum af atvinnuleysinu, borga atvinnuleysið til að það yrði ekki hluti af kostnaði framtíðarinnar. Það var gert á grundvelli þess að þegar atvinnuleysið drægist saman yrði gjaldið lækkað. Það átti með þeirri aðferð að lækka um 0,75% á þessu ári en ríkisstjórnin sá við því eins og öðru, gekk á bak orða sinna og lækkaði gjaldið ekki um 0,75% heldur 0,1%. Það má því segja að þarna sé þó alla vega viðleitni í þá átt, í stað þess að allir búi við svik ríkisstjórnarinnar má a.m.k. segja sem svo að þeir sem falla undir lögin fái það að einhverju leyti upp borið með ívilnuninni.

Eitt ákvæði í frumvarpinu, 1. gr., felur í sér að svokallaðir stofnstyrkir eða þjálfunarstyrkir sem hafa verið veittir, hafa verið til staðar eða heimild hefur verið til staðar um í löggjöfinni falla brott. Ég hef miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt. Auðvitað hlýtur það að ráðast af fjárveitingum hverju sinni og undanfarin ár hefur ekki verið fjárveiting til þessa. Það má því segja að þetta breyti ekki núverandi ástandi en það kann að vera skynsamlegt fyrir okkur að hafa heimildina til staðar engu að síður. Í ýmsum tilvikum er um að ræða ákaflega sérhæfð fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi sína og þá getur verið talsverður kostnaður fólginn í því að þjálfa fólk. Ef við erum að setja niður starfsemi hér á landi sem hefur ekki nokkurn tíma þekkst hérna þurfa fyrirtækin kannski að senda starfsmenn sína til útlanda til þjálfunar, kosta hingað til lands sérhæft fólk til að þjálfa hið nýja starfsfólk o.s.frv. Ég hef því mínar efasemdir um að skynsamlegt sé hjá okkur að fella burtu ákvæðið. Þótt við vitum að ekki eru til fjárveitingar á þessu ári er ekki sjálfsagt að það verði þannig að eilífu, amen.

Síðan vil ég með almennum orðum segja að auðvitað er jákvætt að rýmka heimildirnar til ívilnana en þá skulum við ekki gleyma því að sú löggjöf sem frumvarpið er breyting á er með sólarlagsákvæði og mun bara gilda út þetta ár. Það er mjög mikilvægt að nú fer fram heildarendurskoðun á þeirri löggjöf og mjög mikilvægt að þeirri heildarendurskoðun verði lokið í tæka tíð til að hægt sé að minnsta kosti að lögfesta þær breytingar sem verða taldar nauðsynlegar á fyrirkomulaginu strax á haustþingi svo það geti tekið gildi um næstu áramót. Einmitt út af því er það áleitin spurning hvort ekki hefði verið skynsamlegra hjá okkur að doka við, láta það vera að fara í breytingarnar á þessari stundu og bíða heldur eftir heildarendurskoðuninni. Það mun að sjálfsögðu ekkert stórkostlegt gerast í ívilnunarmálunum frá því að við mögulega samþykkjum lögin núna þegar komið er fram undir mars, kannski með þannig gildistöku að þau taki gildi einhvern tíma í mars, og fram að þeim tíma sem við verðum að ætla að heildarendurskoðuninni sé lokið.

Það er auðvitað svo að búast má við því að fæstir þeirra sem hugsanlega mundu nýta sér styrkina muni gera það í ljósi þess að búið er að boða heildarendurskoðun á löggjöfinni. Það er ljóst mál að sú vinna miðar fyrst og fremst að því að gera það aðgengilegra fyrir þá sem vilja fjárfesta í þeim atvinnurekstri sem getur fallið undir þetta. Það er mjög ólíklegt að slíkir aðilar láti mikið á sér kræla á næstu mánuðum einmitt vegna þess að þeir vita að mögulega bíður betra og heppilegra umhverfi í sambandi við fjárfestingarnar. Þess vegna er þetta enn eitt dæmið um það þegar við erum, jafnvel í góðum tilgangi, stöðugt að breyta lögum vegna þess að menn hafa ekki heildarsýnina þegar atvinnulífið og þeir sem fjárfesta eru fyrst og fremst að kalla á ákveðnar reglur, skýrar reglur og einhvern fyrirsjáanleika.

Virðulegi forseti. Ég hef miklar efasemdir um málið þótt ég meti að sjálfsögðu að verið sé að ganga í ívilnandi átt. Vonandi verður það að minnsta kosti lögfest þannig og vonandi með frekari breytingum á næsta þingi þegar komin verður almennileg ríkisstjórn, ekki ríkisstjórn sem hefur lítinn skilning á atvinnulífinu eins og ég hef verið að rekja og fara aðeins yfir.

Ég vek athygli á því að í framhaldsnefndarumsögn sem kom til atvinnuveganefndar Alþingis í kjölfar bæði umsagnar Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins vegna frumvarpsins lögðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Íslandsstofu fram hugmyndir um frekari úrbætur á endurskoðun laganna sem nú er verið að fara yfir. Við höfðum sérstaklega kallað eftir því hvaða sjónarmið væru þarna uppi varðandi þær úrbætur sem þyrfti að gera og ég ætla aðeins að fara yfir það á þeim stutta tíma sem ég á eftir.

Þeir leggja í fyrsta lagi til að möguleikar á skattaívilnunum verði gerðir fjölbreyttari og að niðurfelling í tekjuskatti í allt að fimm ár eftir að rekstur hefst verði gerð möguleg. Og þá eru menn að tala um algjöra niðurfellingu tekjuskattsins.

Í öðru lagi að hægt verði að veita skattaniðurfellingu í þrjú ár eftir að skattskylda hefði átt að hefjast sem gæfi mönnum þá svolítið forskot til að hefja starfsemi sína.

Lagt er til að þjálfunarstyrkir verði veittir og þeir leggja til allt að 500 millj. kr. á fjárlögum. Síðan vilja þeir að gefin verði út yfirlýsing um afturvirkni við heildarendurskoðun þannig að sett verði inn ákvæði í lögin um að þeir fjárfestingarsamningar sem verða gerðir á árinu 2013 muni njóta þeirra ívilnana sem kunna að verða í boði með nýjum ívilnunarlögum sem ganga í gildi í árslok 2013, að því gefnu auðvitað að ívilnanirnar verði að einhverju leyti hagstæðari en núverandi lög kveða á um.

Ég tel þetta vera algjört grundvallaratriði og að það sé líka mjög mikilvægt vegna þess að hv. atvinnuveganefnd fær málið til meðhöndlunar núna. Ég tel það algjört grundvallaratriði að slíkt ákvæði sé til bráðabirgða í löggjöfinni sem felur í sér að fjárfestingarsamningar sem verða gerðir það sem eftir lifir þessa árs og eru ekki eins hagstæðir og þeir samningar sem gætu verið gerðir eftir lagabreytingu um næstu áramót — það sé alveg skýlaust þannig að það sé afturvirkt með ívilnandi hætti fyrir fjárfestingarnar á árinu 2013. Ella er hætt við því sem ég var að rekja áðan, að menn muni bíða átekta, það verði engar fjárfestingar á þeim grundvelli fyrr en ný lagasetning lítur dagsins ljós. Það væri auðvitað hörmulegt ef lagasetning af því tagi, sem er ívilnandi, yrði í raun og veru til að draga úr (Forseti hringir.) fjárfestingum á grundvelli þeirra laga sem við erum að tala um.