141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

úrvinnslugjald.

571. mál
[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Í frumvarpinu er lögð til hækkun á fjárhæð úrvinnslugjalds fyrir nokkra vöruflokka. Þeir eru: Plast, leysiefni, olíumálning og framköllunarefni. Í öllum tilvikum er um að ræða hækkun til að bregðast við sjóðstapi í viðkomandi vöruflokkum. Í lögum um úrvinnslugjald er gengið út frá því að hver vöruflokkur fyrir sig standi undir sér og er tekjum hvers uppgjörsflokks eingöngu varið til að mæta gjöldum viðkomandi flokks. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að ná viðunandi sjóðsstöðu í þessum vöruflokkum á næstu þremur árum.

Það er gert til að gæta þess að ein atvinnugrein greiði ekki fyrir förgun á úrvinnslu annarrar.

Frumvarpið byggir á tillögum frá stjórn Úrvinnslusjóðs en áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laganna að stjórn sjóðsins skili tillögum um breytingar og leggur þær tillögur fyrir fjármála- og efnahagsráðherra sem leggur síðan fram frumvarp á Alþingi um fjárhæðir gjaldsins.

Við vinnslu tillagnanna hafði stjórn Úrvinnslusjóðs samráð við hagsmunaaðila. Rétt er að geta þess að í stjórn sjóðsins sitja, auk fulltrúa ráðherra, fulltrúar tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi eftir sameiginlegri tilnefningu Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Virðulegi forseti. Að því sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.