141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fór yfir þá miklu neikvæðni sem var í gangi hjá Sjálfstæðisflokknum og hafði miklar áhyggjur af því vegna kosninganna. Hv. þm. er náttúrlega í góðum málum ef hann hefur ekki áhyggjur af öðru en því þegar hann hefur stutt þessa ríkisstjórn síðustu fjögur árin. Ég hvet hv. þingmann og Vinstri græna til að ræða málefnalega hvað hefur gerst á síðustu árum.

Af því að hv. þingmaður nefndi bankakrísuna og sagði hana afleiðingu af stefnu Sjálfstæðisflokksins hvet ég hv. þingmann til að kynna sér litteratúr frá ESB, sem hann þekkir ágætlega, um afleiðingu alþjóðlegu fjármálakrísunnar á Evrópu. Ég man ekki hvort við erum númer 5, 6 eða 7 en við vorum allt of ofarlega þegar kom að afleiðingum bankakrísunnar. Mikil eru völd Sjálfstæðisflokksins úr því að stefna okkar hafði þau áhrif að 4.056 milljarðar evra höfðu farið í bankana í ESB-löndunum, mestallt fjármagn frá Seðlabanka Evrópu eða 36,7% af vergri landsframleiðslu. Hv. þingmaður þekkir ESB mjög vel enda hefur hann dvalið þar langdvölum.

Ef hv. þingmaður vill ræða fortíðina, sem er mikilvægt til að læra af henni, vorum við saman í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar tókum við umræðu um skuldaaukningu Reykjavíkurborgar þegar hún færði skuldirnar frá borginni yfir á Orkuveituna og annað og fór í mjög óskynsamlegar fjárfestingar. Ég held að það væri alveg kjörið að ræða það málefnalega (Forseti hringir.) og er tilbúinn til að fara yfir það með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hvar og hvenær sem er. Við skulum reyna að vera eins jákvæðir og við mögulega getum þegar við ræðum þá alvarlegu hluti.