141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson þegar hann settist eftir ræðu sína áðan, þar sem við erum sessunautar, hvort hann hefði farið í leiklistarskóla í gær vegna þess að mér þótti þeir leikrænu tilburðir sem hann sýndi bera vott um að hann hefði fengið einhverja leiðsögn. Það voru náttúrlega bara tilburðir. Það voru tilburðir hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar til að breiða yfir þá umræðu sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hræðast mest, árangursleysi síðustu fjögurra ára og fylgisleysi ríkisstjórnarflokkanna. Nú á að fara að draga einhverja gamla umræðu upp úr hatti og breiða yfir það sem við eigum að vera að ræða í aðdraganda kosninga, hvað hafi gerst hér og hvaða stjórnarstefnu hafi verið fylgt sl. fjögur ár. Viljum við meira af því sama eða viljum við nýtt?

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur áhyggjur af því að við sjálfstæðismenn munum verða á neikvæðum nótum í kosningabaráttunni. Ég skal gleðja hv. þingmann með því að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Við sjálfstæðismenn ætlum að blása íslensku þjóðinni von í brjóst. Við ætlum að tala til hennar af ábyrgð og virðingu og koma auga á, benda á og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru úti um allt í íslensku þjóðfélagi. Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir allt eru ótrúlega mörg tækifæri hér og ótrúlega mörg íslensk fyrirtæki gera frábæra hluti. Það eru ótrúlega margar hugmyndir sem bíða eftir að komast í framkvæmd og ótrúlega margir sem bíða eftir nýrri stjórnarstefnu eftir 27. apríl.

Ég vona að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson verði málefnalegur í kosningabaráttunni, geri mönnum ekki upp skoðanir (Forseti hringir.) og setji á svið færri leikrit vegna þess að það er eitt sem er algerlega öruggt og það er að málið er alvarlegt. Staða íslenska þjóðarinnar er of alvarlegt mál til að gera það að einhverjum leikaraskap.