141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við þær breytingar sem voru gerðar á þingskapalögunum eiga nánast allar, ef ekki allar, skýrslur Ríkisendurskoðunar að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Meðhöndlun á sumum þessara skýrslna hefur vakið furðu mína. Ég var að grúska og leita að skýrslu sem snýr að öðru máli en ég fjalla um hér og þá rakst ég á skýrslu sem kom til nefndarinnar 26. mars 2012, fyrir tæpu ári, sem varðar fjármálastjórn einnar stofnunar í landinu.

Samkvæmt upplýsingum mínum hefur þessi skýrsla ekki enn verið tekin fyrir í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þar af leiðandi ekki verið vísað til hv. fjárlaganefndar en mín persónulega skoðun er að hún eigi heima þar. Því vil ég fá að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hvernig vinna við og afgreiðsla á þessum skýrslum fari fram í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Eftir þá miklu og hörðu gagnrýni sem kom frá þinginu á Ríkisendurskoðun vegna tafa á skýrslu sem beðið hafði verið um megum við ekki gleyma að auðvitað verðum við að gera sömu kröfur til þingsins um að vinna úr þeim mikilvægu skýrslum, mörgum hverjum, sem koma fyrir þingið. Þess vegna verðum við að gera sömu kröfu til okkar og við gerum til annarra. Það er mín skoðun, og ég hef ekki legið á henni, að margar skýrslurnar í gegnum tíðina frá Ríkisendurskoðun hafi fengið allt of litla athygli í meðförum þingsins.

Því spyr ég hv. þingmann hvernig hv. fjárlaganefnd, í þessu tilfelli, eigi í raun að geta rækt lögbundið eftirlitshlutverk sitt gagnvart þessari skýrslu ef okkur berast ekki svona gögn.

Síðan vil ég líka fá að spyrja hv. þingmann: Hvenær var (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðun boðuð á fund hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fara yfir þær skýrslur sem liggja inni í nefndinni?