141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því sérstaklega að við í allsherjar- og menntamálanefnd ætlum að halda áfram umfjöllun um rannsókn ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara á hugsanlegri tölvuárás á íslenska stjórnsýslu, ekki síst vegna mikilvægis þess að við veltum fyrir okkur hvort í rauninni sé rétt að pólitísk afskipti af sjálfstæðu ákæruvaldi hafi átt sér stað. Á sameiginlegum fundi nefndarinnar var alveg skýrt að mörgum spurningum var ekki svarað. Líklega vegna tímaskorts á fundinum fengu lögreglumenn ekki tækifæri til að svara spurningum sem til þeirra var beint. Ekki síður var ýmislegt athyglisvert, svo vægt sé til orða tekið, sem kom fram um þetta tiltekna mál, meðal annars í máli hæstv. innanríkisráðherra. Málið er engan veginn tæmt og við þurfum að halda áfram að ræða það. Þess vegna hef ég farið fram á við formann allsherjar- og menntamálanefndar að þeir lögreglumenn og hugsanlega aðrir sem voru viðstaddir fundina með ráðherra þann 25. mars 2011 mæti einfaldlega fyrir nefndina, svari spurningum nefndarmanna og leggi fram hugsanleg gögn, hugsanlegar fundargerðir eða skýrslur, einhverjar „nótisur“ sem voru skrifaðar í kjölfarið á fundinum.

Ég held að þetta eigi að vera öllum að meinalausu ef menn, meðal annars hæstv. innanríkisráðherra, meina raunverulega það sem þeir hafa sagt, að þetta mál beri að upplýsa. Þess vegna held ég að nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd eigi að fagna því að við förum betur yfir málið. Það er hins vegar ljóst að stefna innanríkisráðherra varðandi umfjöllun mála núna á þeim skamma tíma sem eftir lifir þings hefur verið sú að á umliðnum fundum, þriggja tíma fundum í hvert sinn, höfum við verið að fjalla um Happdrættisstofu. Sú er forgangsröðun innanríkisráðherra þessa dagana. Við höfum ekki fengið tækifæri til að ræða mál sem snerta lögregluna né þau frumvörp sem hafa verið lögð fram, meðal annars til að efla löggæsluna (Forseti hringir.) í heild á landinu.