141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

rangfærslur þingmanns.

[15:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að vísa til fordæmis þegar sá forseti sem þá sat á forsetastóli taldi ástæðu til að grípa inn í ræðu mína og leiðrétta málflutning minn af því að hann var ekki nógu nákvæmur. Ég hafði talað um stefnu sjálfstæðismanna en þáverandi hæstv. forseti sagði að tala bæri um stefnu ungra sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.) Ef ástæða er til að hæstv. forseti hafi eftirlit með málflutningi ræðumanna á þennan hátt þá eru það mikil afglöp, ég verð að velja það orð, virðulegur forseti, ef á að láta það óátalið að hv. þm. Helgi Hjörvar skuli koma hingað upp og halda fram tómum rangfærslum í tvær heilar mínútur. Eintómri vitleysu.

Hv. þingmaður hélt því fram að ég hefði lagst gegn íslensku krónunni og beitt mér gegn henni. Ég hef rætt aðra valkosti og eins og ég tók fram í byrjun ræðu (Forseti hringir.) minnar er sjálfsagt að menn mundu ræða aðra valkosti. (Forseti hringir.) Það var eitt að ræða valkosti hér í þinginu en annað þegar fjármálaráðherra (Forseti hringir.) landsins eða seðlabankastjóri landsins (Forseti hringir.) talar niður gjaldmiðilinn. (Forseti hringir.) Þetta lét virðulegur forseti algjörlega óátalið en ég var skammaður fyrir að tala ekki um unga sjálfstæðismenn.