141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[15:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli en hann tekur víðfeðmt mál fyrir sem við þyrftum kannski meiri tíma en fimm mínútur til að ræða. Ég skal gera mitt besta að tæpa á helstu atriðum.

Ef við veltum fyrst fyrir okkur leiðum og möguleikum til að stjórna fjölda ferðafólks og dreifa um landið þá gera menn það auðvitað bæði meðvitað og ómeðvitað með ýmsum hætti. Augljóslega á hér við eins og víða annars staðar að aðgengið, sérstaklega í formi samgangna, er alltaf stýritæki í þessum efnum. Við tökum sem dæmi hálendið sem er lokað yfir veturinn af samgönguástæðum. Það er út af fyrir sig þekkt erlendis að setja beinar fjöldatakmarkanir á einstaka staði. Við höfum ekki farið út á þá braut hér þótt slíkt hafi komið til umræðu upp á síðkastið.

Loks er það verðlagning á þjónustu og eftir atvikum samgöngum og beinar aðgerðir til að draga ferðamenn út á fleiri svæði eins og uppbyggingu nýrra segla. Þar komum við auðvitað að því fé sem til ráðstöfunar er til fjárfestinga eða nýfjárfestinga í innviðunum.

Ef við nefnum gjaldtökuna má skipta henni í tvennt, annars vegar hefðbundin skattlagning af ýmsu tagi eða sérmerkt gjaldtaka eins og gistináttagjaldið til að afla tekna til fjárfestingar í greininni. Þar hafa menn rætt mismunandi leiðir, innkomugjöld, farseðla og gistináttagjöld, beina gjaldtöku inn á einstaka ferðamannastaði eða hugmyndir eins og ferðamannapassa þar sem ferðamenn mundu kaupa sér tiltekinn aðgangspassa sem opnaði þeim aðgang að vinsælum stöðum þar sem eitthvert eftirlit væri þá með því að þeir hefðu passann undir höndum.

Hvernig standa staðirnir og hvað geta þeir tekið við mörgum ferðamönnum? Þar skiptir fjárfesting í innviðunum auðvitað höfuðmáli. Það gerist meira á Íslandi á þessu ári í þeim efnum en hefur sennilega gerst að meðaltali á tíu árum sé litið aftur í tímann. Vel á annan milljarð króna, jafnvel hátt í 2 milljarða kr., munu fara til beinna nýfjárfestinga í uppbyggingu innviða á þessu ári. Þar af hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða um 570 milljónir ef lagt er saman það sem kemur með fjárfestingaráætlun og gistináttagjaldi. Á vegum umhverfisráðuneytisins renna til þjóðgarða og friðlýstra svæða líklega um 280 milljónir með einstökum fjárfestingarverkefnum eins og uppbyggingu Kirkjubæjarstofu, 300 milljónir í markaðsaðgerðir o.fl. Ljóst er að þessi fjárfesting nemur samtals vel á annan milljarð króna.

Það er mikilvægt í þessu sambandi að leggja áherslu á skipulags- og hönnunarþáttinn og undirbúning þar sem meðal annars er tekið á þeim þáttum hvað svæðin þola um leið og reynt er að tryggja öryggi og aðgengi allra. Okkur hefur vantað heildstæða stefnumörkun í þeim efnum en mikið hefur áunnist með Ferðamálaáætlun 2011–2020, skýrslu um ferðamál sem nú liggur hér fyrir, og margvíslegu starfi af fleiri toga.

Varðandi samgöngumál nefndi hv. þingmaður þá staðreynd að yfirgnæfandi meiri hluti allra erlendra ferðamanna kemur um Keflavíkurflugvöll, líklega 96%, og að það væri mjög virkt tæki að dreifa álaginu betur svo að ferðamenn kæmu á fleiri staði á landinu. 20 ferðaþjónustuaðilar og 10 sveitarfélög á Norðurlandi eru núna í samstarfi í metnaðarfullu verkefni í formi flugklasasamstarfs um að reyna að koma á reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll sem gæti gefið fordæmi fyrir Egilsstaðaflugvöll og fleiri staði. Norræna er auðvitað leið fyrir þá sem þann kost velja. Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur því að þaðan er flug til Grænlands og Færeyja fyrir utan að vera miðstöð innanlandsflugsins. Síðan er vegakerfið sem þarf auðvitað að hafa undir þegar við ræðum þessi mál. Samgöngur stýra þessu mjög mikið. Við höfum tvö nýleg og góð dæmi: Opnun Héðinsfjarðarganga og tilkoma siglinga frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn hafa gerbreytt og stóraukið möguleika ferðaþjónustu í þessum tveimur byggðarlögum. Það þarf að auka vetrarþjónustuna og í því sambandi fagna ég að Vegagerðin opnaði í dag nýtt öflugt upplýsingakerfi um ástand og færð á vegakerfinu í rauntíma.

Varðandi eflingu ferðaþjónustugreinarinnar almennt og dreifingu ferðamanna þá er auðvitað líka mikilvægt að huga að afþreyingarþáttum og vörunni eða gæðunum sem í boði eru og draga ferðamennina að. Það er líka hægt að stýra því. Þar með erum við, að mínu mati, algerlega á réttri braut með Ísland allt árið. Það eru stórkostlegir hlutir að gerast þegar við sjáum 30% aukningu núna í svartasta skammdeginu mánuð eftir mánuð. Ég er ekki að segja að það sé allt því að þakka að stjórnvöld og greinin hafi verið í miklu átaki en það verkar greinilega vel.

Að lokum vil ég leggja áherslu á menntun, rannsóknir og þróun. Það sem við þurfum að gera betur er eitt af því sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (Forseti hringir.) er að skoða núna í samstarfi við menntamálaráðuneytið, m.a. svo að dæmi sé tekið menntun ferðaleiðsögumanna og (Forseti hringir.) loks gagnaöflun og samstarf (Forseti hringir.) við Hagstofuna þar um.