141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[15:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að taka upp þessa mjög svo brýnu umræðu. Ég vil einnig þakka hæstv. atvinnuvegaráðherra fyrir innlegg hans í þetta mál.

Það liggur fyrir að við þurfum með einum eða öðrum hætti að endurskipuleggja og hugsa upp á nýtt hvernig við ætlum að taka á móti ferðamönnum. Ágangur er orðinn gríðarlega mikill eins og hefur komið skýrt fram í umræðunni og má segja að nokkrir ferðamannastaðir séu yfirfullir á hverju ári.

Ég tel vert að skoða það að dreifa betur ferðamönnum um allt land. Það er sláandi að hugsa til þess að þeir ferðamenn sem fara í gegnum Keflavíkurflugvöll eyða einungis 1,8 gistinóttum á Norðurlandi þegar þeir sem fljúga beint til Akureyrar eða Egilsstaða eyða um það bil 7,8 gistinóttum þar. Við erum að tala um að á því svæði eru einar fegurstu náttúruperlur landsins sem ég held að við gætum nýtt mun betur en við gerum í dag.

Hér hefur einnig komið til umræðu sú skattlagning sem þarf að fara fram með einum eða öðrum hætti. Ég er ekki sannfærður um að gistináttagjaldið skili þeim markmiðum sem að var stefnt þegar það var sett. Ég held að við þurfum mun frekar að horfa á beina gjaldtöku. Við framsóknarmenn höfum samþykkt á flokksþingi okkar að taka upp svokallaða ferðamannapassa. Ég held að það sé framtíðin og vona að núverandi stjórnvöld eða þau sem verða hér á næsta kjörtímabili skoði það sérstaklega.