141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka eins og aðrir hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni. Ég mundi segja að fjölgun ferðamanna á Íslandi sé ekki vandamál í mínum huga. Það er tækifæri. Þetta er mikilvæg atvinnugrein sem ólíkt mörgum öðrum dreifist út um allt land og það er ekki síst fyrir tilstuðlan frumkvæðis og krafts heimamanna á hverjum stað sem fjölsóttir staðir verða til og sem ferðaþjónustuna er drifin áfram víða um land.

Ég tel mikilvægast í því samhengi að skoða hvernig stjórnvöld geta unnið með aðilum í ferðaþjónustu að uppbyggingu og skipulagi ferðaþjónustunnar. Hér hafa verið nefnd ágætisdæmi, Ísland allt árið og þau verkefni, en það er ekki nóg. Síðustu árin hefur það komið þannig fyrir sjónir í þessum sal að þrátt fyrir fögur fyrirheit um slík verkefni ráðist stefnan í ferðaþjónustu og ýmsu öðru á endanum í fjárlagafrumvarpinu. Ég leyfi mér að fullyrða að skaðsemi ákvarðana eins og yfirdrifinnar hækkunar á virðisaukaskatti á gistingu og núna það flókna þriggja þrepa virðisaukaskattskerfi sem sú grein þarf að búa við plús aðförin að bílaleigunum í fjárlagafrumvarpinu hafi stórskaðað íslenska ferðaþjónustu. Ég held að menn ættu, áður en þeir fara að hafa áhyggjur af offjölgun í ferðaþjónustunni, að hafa áhyggjur af því að þetta er hvikull markaður (Forseti hringir.) og við erum í samkeppni um ferðamanninn, ekki á milli landshluta hér heldur við önnur lönd.