141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir að ég lít ekki á fjölgun ferðamanna sem vandamál heldur miklu frekar (Gripið fram í.) tækifæri. Ég tek líka undir að stefnumörkunin í þeirri atvinnugrein eins og öðrum eigi að vera í átt að frekari verðmætasköpun en ekki endilega eingöngu fjölgun.

Ég verð að segja eins og er að ég treysti einkaaðilum langbest til að byggja upp. Það er gríðarleg uppbygging í greininni víða um land, bæði í gistingu, þjónustu og afþreyingu. Ég held að það sé eðlilegt. Hið opinbera hefur komið að markaðsmálum ásamt atvinnugreininni og þar hefur margt verið gert vel og verið hjálpað vel til, en íslenska krónan og gengi hennar hefur svo sannarlega líka hjálpað til þar.

Þá hefur veðurfar síðustu árin ekki skemmt fyrir því að Ísland allt árið hefur gengið upp, en hið opinbera kemur virkilega að samgöngumálum og skiptir miklu máli til að dreifa ferðamönnum um allt land. Hæstv. ráðherra nefndi Vestmannaeyjar sem gott dæmi þar sem möguleikarnir eru miklir og búið að sýna fram á þá þótt ekki sé allt komið í það horf sem best getur orðið.

Ég get til dæmis nefnt uppbyggingu á Kili, að þar sé betri vegur til að taka á móti ferðamönnum í samkeppni eða til að vega á móti til að mynda Landmannalaugum og því svæði, ef menn kæmust í Kerlingarfjöll hluta ársins miklu lengur. Þar hafa einkaaðilar sýnt frumkvæði til þess og hið opinbera gæti komið á móti. Það væri mjög jákvætt.

Við framsóknarmenn, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom inn á, samþykktum á okkar flokksþingi að skynsamlegt væri að taka upp náttúrupassa. Okkur finnst óskynsamlegt að fara í einstaka gjaldtöku á hverjum stað því að augljóst er að aðeins nokkrir staðir á landinu gætu staðið undir slíku en ekki allir. Þá mundum við fá fjármuni til að byggja upp annars vegar til aukinnar markaðssetningar til að dreifa ferðamönnum betur um landið, og þá líka á mismunandi tímum, en líka til að byggja upp á viðkvæmum stöðum. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, þar á sums staðar að byggja upp af miklu meiri metnaði en menn hafa gert, hvort sem er af hálfu opinberra aðila, félagasamtaka eða einkaaðila. Við gætum þá tekið á móti ferðamönnum á þeim tímum sem við höfum ekki getað gert til þessa.