141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir umræðuna sem hefur verið málefnaleg og á dýptina. Ég vil fyrst taka fram að ég tel að ferðaþjónustan eigi að borga sinn hluta af samneyslunni með sköttum eins og aðrar greinar en ekkert umfram aðrar greinar. Mér sýnist ekki að þær auknu álögur sem hafa verið settar á greinina hafi komið í veg fyrir enn frekari fjölgun ferðamanna, þvert á móti hefur þeim fjölgað sem aldrei fyrr. Ber að líta á þá staðreynd í því ljósi.

Annað sem fram kom í ræðu hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er að nú er verið að skoða leiðir til að efla og auka menntunarstig í greininni, sem er ein af forsendum þess að hún geti vaxið enn frekar, og sömuleiðis er verið að huga að auknu rannsóknafé til hennar. Það er í rauninni óþolandi að greinin búi við svo skarðan hlut af rannsóknafé hins opinbera og raun ber vitni á meðan aðrar og eldri greinar sitja þar fyrir á fjósbitanum.

Ég vil nefna nokkur aðalatriði. Ég nefndi tíu atriði í fyrri ræðu minni. Ég tel að ef við skoðum það í þaula séu ef til vill þrjú atriði sem við þurfum sérstaklega að huga að. Þá nefni ég reyndar líka atriði sem hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á, að auka virði hvers ferðamanns sem kemur hingað til lands frekar en að fjölga þeim linnulaust. En það er uppbyggingin sem skiptir miklu máli, ekki síst fyrir náttúruna sem við verðum að huga að og hljótum að geta verið sammála um að þurfi að vera í forgrunni. Það er markviss fjölgun ferðamannastaða eins og aðrar þjóðir hafa gert til að dreifa álaginu á völdum svæðum og það eru samgöngumálin, ekki síst hvað snertir flugið og fjölga þarf áfangastöðum, t.d. til Akureyrar, Egilsstaða og ef til vill Ísafjarðar, fyrir utan augljósa staði sem Keflavík er.

Þannig förum við betur með landið og getum víkkað atvinnugreinina sem mest má vera vegna þess að í atvinnuskyni þurfum við mest af öllu að auka við fjölbreytni starfa. Það gerum við með því að (Forseti hringir.) færa atvinnugreinina sem mest og víðast um landið.