141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:16]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Frú forseti. Síldardauðinn í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi, fyrst um miðjan desember og svo aftur nú í byrjun febrúar, er eitt af stærstu náttúrufarslegum slysum þannig að það nálgast hamfarir fyrir þann nytjastofn sem síldin er, auk ófyrirsjáanlegra áhrifa þessa atburðar á lífríki svæðisins. Mér finnst því rétt að við tökum þetta mál til umræðu á hv. Alþingi og að hæstv. umhverfisráðherra geri grein fyrir atburðarásinni þarna gagnvart umhverfisþáttum, hvernig hefur verið tekið á þeim málum frá þeirri hlið og hver staðan er nú í því máli.

Eins og okkur öllum er í fersku minni varð hinn 13. desember síðastliðinn vart við mikla síld í Kolgrafafirðinum, og þann dag og síðan næsta dag á eftir rak hana á land. Við nánari rannsóknir kom í ljós að ekki aðeins fjörurnar voru fullar af dauðri síld, heldur lá líka dauð síld á botni fjarðarins.

Talið er að síldardauðinn þarna í desember hafi numið um það bil 30 þús. tonnum. Grúturinn og rotnandi síld lá í fjörunni og var svo sem lítið hugað að því hvað þarna var að gerast. Eitt var þó víst, fólk sem bjó á svæðinu hafði miklar áhyggjur af þessu.

Okkar færustu vísindamenn töldu um einstakt tilvik að ræða og að ekki væri endilega við því að búast að slíkt mundi gerast aftur.

Kolgrafafjörðurinn er mjög djúpur og þröngur út við munnann. Af sögunni er kunnugt að hann hefur áður fyllst af síld og til eru sagnir um að þarna hafi líka átt sér stað síldardauði, þó alls ekki í því umfangi sem nú er um að ræða.

Hinn 1. febrúar gekk aftur síld í miklu magni inn í Kolgrafafjörðinn og rak þar á land, dauða og hálfdauða. Þá var brugðist miklu hraðar við og menn gerðu sér grein fyrir því að þarna væri um virkilega alvarlega vá að ræða. Talið er að nú þegar hafi 20–30 þús. tonn einnig drepist í hið seinna skipti, en verið er að mæla heildardauðann. Nú er hafið umfangsmikið hreinsunarstarf og menn grípa til allra þeirra aðgerða sem þeim geta nánast dottið í hug, bæði til að koma í veg fyrir frekari síldardauða, hvernig sem svo til tekst, og að þrífa upp og hreinsa síld sem komið er á fjörur eða rotnar þar, annars vegar með því að grafa hana á staðnum og hins vegar með því að flytja grútinn burt.

Þó að þetta stoppi nú, sem við vonum, hafa gríðarlega umhverfislegar aðgerðir átt sér stað í náttúrunni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífríki á svæðinu, búskap á jörðinni sem þarna liggur að o.s.frv. Það er því mikilvægt að þetta verði allt saman vaktað.

Nú er talið að um 12% af heildarsíldarstofninum hafi farist þarna. Enn er mikið magn af síld, menn telja jafnvel að 200–300 þús. tonn séu innan eða utan við brúna þarna. Menn geta ekki hugsað þá hugsun til enda að hún gangi inn. Við verðum að krossleggja fingurna og vona að svo verði ekki og þetta stöðvist þarna.

Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra um umfang þessa máls, bæði tjón og skaða og hvað þarna er verið að vinna og gera. Hvernig sér hún líka aðgerðir til að bregðast við endurtaki þetta sig? Það er ekki víst að það gerist núna en kannski næsta haust eða (Forseti hringir.) hvenær sem er. Við vonum þó að það verði ekki.