141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:21]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum fordæmalausa viðburði sem hann rakti ágætlega í ræðu sinni. Þær aðstæður sem þarna koma upp kalla á stöðugt mat og stöðugt endurmat, má segja á hverjum einasta degi. Það tekur mið af sjávarföllum og veðurfari. Upphaflega var talið að náttúran sjálf gæti unnið á síldinni, að hún rotnaði hratt á hafsbotni, sæmilega hratt í fjöru, en grútur tæki lengri tíma og það þyrfti fyrst og fremst að horfa til þess. Eftir seinni viðburðinn var, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, settur aukinn kraftur í að skipuleggja hreinsun og aðrar aðgerðir, enda mun meira magn sem kom í fjöruna þá þótt heildardauðinn í firðinum væri ívið minni í síðara tilvikinu en því fyrra.

Við bregðumst við eftir mætti. Við reynum að tryggja faglegt mat og vinnubrögð, þ.e. að forðast fálmkennd viðbrögð, bregðast hratt við aðstæðum. Mjög margar hugmyndir hafa komið upp. Við freistum þess að stilla saman strengi allra þeirra sérfræðistofnana sem við höfum á að skipa, þó þannig að það sé alveg klárt að heimamenn séu í öndvegi og innsæi þeirra og þekking á aðstæðum þarna miðlæg í allri ákvarðanatöku. Hugmyndir um hreinsun hafa verið skoðaðar og metnar, en endanleg ákvörðun hefur verið tekin í þessu samráði við sveitarstjórn og landeiganda í samráði við viðkomandi sérfræðistofnanir.

Við höfum lagt mikla áherslu á upplýsingaflæði og samstarf við heimamenn. Náttúrustofa Vesturlands hefur fengið sérstakt hlutverk í þessum aðgerðum. Ábúendur á Eiði eru þátttakendur í eftirlitsverkefni og hafa hönd í bagga með hreinsun. Reglulegt samráð er við sveitarstjórn og við höfum stutt við eftirlit og hreinsun og munum einnig koma að frekari rannsóknum og síðan hugsanlegum mótvægisaðgerðum.

Ríkisstjórnin hefur þegar lagt fé til verksins, fyrst og fremst til vöktunaráætlunar, en það er líka alveg ljóst að við getum ekki séð fyrir núna nákvæmlega hvert umfang verkefnisins verður. Vandinn er fjölþættur eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns. Við erum að tala um skaða á síldarstofninum, einkum efnahagslegan skaða. Við erum að tala um óþægindi og tjón fyrir fólk, einkum ábúendur á svæðinu, en einnig auðvitað vegfarendur, m.a. lyktarmengun. Grútur getur orðið vandi fyrir sauðfé og æðarvarp eftir því sem dag tekur að lengja. Rædd hefur verið ógn við arnarstofninn en minni ógn er fyrir aðra fugla. Almennur skaði fyrir lífríki Kolgrafafjarðar er óþekktur, við vitum ekki hversu langan tíma í heild það tekur fjörðinn að jafna sig og auðvitað er möguleiki á enn verri skaða því að umfang þessara hamfara er fordæmalaust.

Staðreynd sem er mikilvægt að halda til haga er að nær allur vorgotssíldarstofninn er stundum innan brúar nákvæmlega í Kolgrafafirði. Aðgerðir hafa miðast við að mæta þessum vanda að ráðum fagstofnana, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Náttúrustofunnar, í góðu samráði við heimamenn.

Ég kallaði eftir stöðunni í dag til að gera þinginu, og hv. þingmanni, grein fyrir henni í þessari umræðu. Hún er sú að í dag gerir Hafró tilraunir með tvær aðferðir til að fæla síld úr firðinum. Það eru engar niðurstöður um magn síldar í mælingum frá í gær, en þessar tilraunir fara fram í dag og við munum síðan sjá hvernig þeim vindur fram. Það er auðvitað mikilvægt í ljósi súrefnisstigs fjarðarins að halda síldinni sem mest frá.

Mjög vel gengur að plægja í sandinn, það er mjög lítið eftir. Það er komið vel á veg með að flytja þennan grút í burtu sem til stendur að flytja í þessari umferð. Það er búið að grafa 10 þús. tonn af grút í fjörunni. Það er talið betra með tilliti til gerjunar að hafa margar litlar holur. Hver hola fyrir sig er 2,5 sinnum 2,5 m að umfangi. Umhverfisstofnun telur að náttúran ráði við rest, þ.e. að því er varðar grútinn. 340 tonnum hefur síðan verið ekið í Fíflholt og stendur til að aka þúsund tonnum þangað.

Hafrannsóknastofnun fór í gær að skoða magn síldar á botni. Það verður gert reglubundið fram á vor. Súrefnisstigið er lágt og auðvitað áhyggjuefni og tilraun verður gerð með fælur eins og áður kom fram.

Matís vinnur að rannsóknum á fitu og niðurbroti fitunnar. Það eru engar nýjar fréttir, sem betur fer. Það eru kannski bestu fréttirnar að það eru engar nýjar fréttir af grútarblautum örnum og að engir ófleygir ernir hafa fundist. Allir ernir eru því fleygir, voru það að minnsta kosti 20. febrúar 2013, en við vöktum ástandið frá degi til dags því að þetta er viðburður af þeirri stærðargráðu og þeirrar gerðar að ekki er hægt að gera áætlanir öðruvísi en að þær séu sveigjanlegar upp á hvern einasta dag.