141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er hægt að taka undir orð hv. þingmanns þegar hann segir að þetta séu í raun náttúruhamfarir. Í þessum tveimur tilfellum drápust um 50 þús. tonn af síld. Til að setja það í samhengi bendi ég á að leyfður heildarafli á þessu fiskveiðiári er 65 þús. tonn. Þetta eru gríðarlegar náttúruhamfarir. Þetta gerist við sömu aðstæður, á stórstreymi þegar veður var stillt og tunglbjart, þannig að það liggur fyrir.

Ég vil þó segja að ég tel að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafi staðið sig einstaklega vel í að bregðast við þessum atburðum. Ég tel líka að stjórnvöld hafi staðið sig vel, svo ég dragi ekkert úr því, bæði forustumenn ríkisstjórnarinnar og líka forsvarsmenn þeirra sem heyra þar undir, til að bregðast við þessum vanda.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við nýtum tímann fram undan, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Nú er Hafrannsóknastofnun að prófa tvær aðferðir til að halda síldinni fyrir utan fjörðinn. Ég held að við þurfum að nýta tímann til að reyna að meta hvort við getum gripið til aðgerða komi þessi staða upp aftur og þá hvernig, hvort sem það verður næsta haust eða seinna.

Við verðum líka að átta okkur á því að þegar síldin leitar inn á þetta svæði er hún að leita í kaldari sjó, er í raun að fara í svokallaðan vetrardvala, þ.e. hægja á líkamsstarfseminni. Þarna eru upp undir 200 háhyrningar að rugla hana í ríminu. Við þurfum að skoða alla þessa þætti saman og ég er alveg sammála hæstv. ráðherra í því að við þurfum að fara varlega, vera ekki með neinar stórar yfirlýsingar eða fullyrðingar og reyna að læra hvernig við getum brugðist við þessum náttúruhamförum, eins og ég vil kalla þetta.