141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að taka þessa umræðu upp og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem komu fram í máli hennar og ég vil einnig taka undir þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttir tók hv. umhverfisnefnd þetta mál til umfjöllunar og fékk til sín þá aðila sem málið varðar. Þetta er gríðarlegt tjón eins og hér hefur komið fram og ef við setjum tölurnar í samhengi þá er þetta nánast heildaraflinn sem er úthlutað á einu ári. Það kom fram á nefndarfundinum að dag frá degi, bara viku á milli viku, hefði magnið af síld í Kolgrafafirði hlaupið á því að vera jafnvel meira en 200 þús. tonn, svo hafi það minnkað tveimur sólarhringum seinna en síldin sé þarna enn.

Ég vil sérstaklega taka undir með þeim sem hafa komið inn á að þetta verði skoðað til lengri tíma. Auðvitað þarf að bregðast við núna varðandi hreinsun og annað því um líkt en það er mikilvægt að við leitum leiða til að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist á nýjan leik, til lengri tíma litið, og nýtum tímann til þess vel og setjum allan kraft í það verk. Það er gríðarlegt tjón sem af þessu hlýst og þarna eiga allir að taka höndum saman, þvert á flokka. Ég vil líka taka undir það sem kom m.a. fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni þegar hann hrósaði Hafrannsóknastofnun og fleiri aðilum.

Það kom vel fram á fundinum sem umhverfis- og samgöngunefnd hélt að vel hefur verið haldið á þessu máli af hálfu allra sem að því hafa komið. Ég ítreka að mjög mikilvægt er að menn noti alla þá orku sem hægt er til þess að prófa aðferðir og leita leiða til að koma í veg fyrir að þetta gerist á nýjan leik.