141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:42]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er ljóst að þetta er stórmál og þótt til séu sagnir um að síld hafi áður gengið þarna á fjörur og drepist hefur það aldrei verið í því magni sem hér er um að ræða, að minnsta kosti hefði þá verið greint frá því í sögum. Ég var þarna í morgun og hitti ábúendurna á Eiði, Arnór og Lilju, og þau sögðu að Kolgrafafjörðurinn væri mikilvægt uppvaxtarsvæði. Þau hefðu alist upp við að þarna væri mikið af lítilli síld, smásíld, seiðum og reyndar af fleiri fisktegundum. Þau höfðu áhyggjur af því að þetta gæti ekki aðeins haft áhrif á síldina heldur einnig lífríkið þarna til næstu ára.

Svona hamfarir geta því haft víðtæk áhrif. Ég get staðfest að unnið var af miklum krafti við að grafa niður grútinn, eða síldarhræin, og flytja hann brott. Menn gerðu ráð fyrir að því mundi ljúka á næstu tveimur til þremur dögum en jafnframt var ótti við að þetta gæti endurtekið sig því að áfram var allmikið af síld í firðinum og úti fyrir var líka gríðarlegt magn af síld og enginn gat séð fyrir hvað mundi gerast ef hún tæki aftur á rás inn. Við erum að tala um gríðarlegt tjón. Ef við hefðum veitt þá síld sem þarna drapst værum við kannski að tala um 12 milljarða kr.

Það eru ekki aðeins miklir hagsmunir lífríkisins í húfi heldur einnig fjárhagslegir og að nýta þennan stofn. Það má ýmislegt gera til að tryggja að svona lagað gerist ekki aftur, að reyna að lágmarka hættuna á því. En ég þakka fyrir umræðuna.