141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

lyfjalög.

460. mál
[16:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með frumvarpinu er lagt til að Lyfjastofnun veiti leyfi til innflutnings og framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs og hafi eftirlit með þeim aðilum sem fengið hafa slíkt leyfi. Til að standa straum af kostnaði við eftirlitið er lagt til að innheimt verði sérstakt eftirlitsgjald. Þá er lagt til að nýr kafli bætist við lyfjalög. Eins er mikilvægt að hér komi fram við afgreiðslu þessa máls að starfsemi sem frumvarpinu er ætlað að ná til, þ.e. innflutningur og framleiðsla lyfjablandaðs fóðurs, er ekki stunduð hér á landi. Þá er ekki vitað til þess að slík starfsemi sé áætluð í náinni framtíð. Engu að síður er nauðsynlegt að tilskipunin verði innleidd á formlegan og löglegan hátt í landsrétt, þ.e. að hafa regluverkið tilbúið.

Það er ekki stefna núverandi ríkisstjórnar, og það verður vonandi ekki svo lengi sem land byggist, að heimila lyfjablandað fóður.