141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[17:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp gæti verið örlítil vísbending um að ríkisstjórnin sé búin að átta sig á því núna undir lok kjörtímabilsins að skattalækkanir á fyrirtækjum séu miklu fremur til þess fallnar að örva atvinnustarfsemi en skattahækkanir. Það er út af fyrir sig dálítill áfangi. Frumvarpið felur í sér frekari ívilnanir fyrir þessa tegund af atvinnurekstri en þær ívilnanir sem við höfum búið við. Það er líka jákvætt.

Hins vegar er gallinn á þessu sá að núna stendur fyrir dyrum, stendur reyndar yfir, heildarendurskoðun á þessari löggjöf. Löggjöfin er með sólarlagsákvæðum, henni lýkur um næstu áramót. Hættan í málinu er sú að með þessari aðgerð gerist óskaplega lítið vegna þess að þeir sem eru að íhuga þessa hluti munu væntanlega allir bíða eftir heildarendurskoðuninni í þeirri von og trú að hún muni leiða til frekari ívilnana, eins og hefur verið boðað í raun og veru.

Þess vegna er mjög mikilvægt ef þetta frumvarp á að ná fram að ganga að tryggilega verði frá því gengið að það hafi afturvirkt ákvæði, pósitíft afturvirkt ákvæði sem gerir það að verkum að þær ívilnanir sem verða á næsta ári muni þá gilda líka fyrir fjárfestingar á þessu ári. (Forseti hringir.) Ella er hætt við því að hér verði algjört fjárfestingastopp einmitt á þessu sviði á árinu 2013.