141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp um bókhald. Það sýnir eiginlega nauðsyn þess að við höfum þrjár umræður í þinginu. Málið hefur batnað verulega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. Við umræðu í nefndinni kom fram að í rauninni væri hægt að ná fram markmiði frumvarpsins um að krefjast þess að fyrirtæki leggi fram eigendalista án þess að íþyngja þeim sérstaklega með þeirri kröfu. Það væri hægt að gera það með því að gefa ríkisskattstjóra leyfi til að keyra saman rafræna ársreikninga fyrirtækja og upplýsingar sem fyrirtæki leggja fram á svokölluðum hlutabréfamiðum. Fyrirtæki þurfa að upplýsa um hluthafana og hversu stóran hlut þeir eiga í viðkomandi fyrirtæki. Það má segja að þær upplýsingar sem frumvarpið var hannað til að tryggja að kæmu fyrir almenningssjónir hafi legið í ýmsum gagnagrunnum hjá ríkinu en það vantaði bara lagaheimild til að ríkisskattstjóri gæti sett þessar upplýsingar saman í einn gagnagrunn og gert aðgengilegar þeim sem þess óska.

Ástæðan fyrir því að nauðsynlegt þykir að upplýsa um eignarhald fyrirtækja er sú að um er að ræða fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð. Slík fyrirtæki eru þannig uppbyggð að ef og þegar þau lenda í gjaldþroti falla skuldir umfram eignir á aðra aðila en þann sem stofnaði til þeirra, þ.e. viðskiptavini lögaðilans, birgja eða jafnvel skattgreiðendur. Það þykir þar af leiðandi nauðsynlegt að upplýsa fólk um eignarhald á fyrirtækjum til að það geti metið hvort það vilji eiga viðskipti við viðkomandi fyrirtæki sem viðskiptavinir eða birgjar.

Jafnframt er talað um að það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að þau viti ekki bara hvaða lögaðili eigi hlut í fyrirtækinu heldur hvaða einstaklingar standi á bak við eignarhlutinn. Núna er umræða í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um hvort ekki sé tímabært að skrifa nýja tilskipun sem skyldar fyrirtæki til þess að afla sér upplýsinga um raunverulega eigendur fyrirtækja. Það er þá til dæmis gert til að koma í veg fyrir óeðlileg tengsl eigenda fyrirtækja við samkeppnisaðila.

Krafan um gagnsætt eignarhald hefur líka komið fram vegna fjölgunar fyrirtækja með aðsetur á aflandseyjum, svokallaðra aflandsfyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru fyrst og fremst sett upp til að sniðganga skattgreiðslur og skattalög. Staðan er orðin þannig í mörgum löndum að mörg stærstu fyrirtækin borga enga skatta til viðkomandi ríkis þó að þau hafi alla sína starfsemi í því ríki. Þetta er auðvitað óviðunandi, sérstaklega á tímum niðurskurðar eins og við búum við í dag.

Það er ekki nóg að upplýsa hverjir eru eigendur þegar um er að ræða lögaðila vegna þess að þá fáum við bara upplýsingar um það að 365 er að mestu leyti í eigu fyrirtækis eða lögaðila sem heitir Moon Capital. Það að Moon Capital eigi 43% í 365 segir okkur afskaplega lítið um eignarhaldið á 365. Þannig hefur komið fram krafa um að í lögum sé tryggt að fyrirtæki þurfi að gefa upp hverjir séu raunverulegir eigendur og að við slíka kröfu sé litið til laga um peningaþvætti en í þeim lögum eru lögaðilar sem eiga hlut í lögaðila skyldugir til að gefa upp hverjir eru raunverulegir eigendur, þ.e. einstaklingar, á bak við eignarhlut umfram 25%.

Eins og ég minntist fyrr á er verið að ræða það hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvort ekki ætti að skylda, ekki bara fjármálafyrirtæki, heldur líka fyrirtæki, til að vera með slíkar upplýsingar á hreinu, a.m.k. innan húss, og jafnvel hvort ekki sé nauðsynlegt að skylda fyrirtækin til að birta upplýsingar um raunverulega eigendur.

Sem viðbrögð við þessari umræðu og kröfu hef ég lagt fram breytingartillögu við frumvarp um ársreikninga þar sem þess er krafist að upplýst sé um raunverulega eigendur og þá í samræmi við lög um peningaþvætti. Það er ekki nóg að skila upplýsingum sem hluthafamiða um hvaða lögaðili á í fyrirtækinu og hversu stóran hlut, heldur þarf líka að segja hvaða einstaklingar eru á bak við hlutinn.

Þetta er auðvitað gert til að tryggja gagnsætt eignarhald. Að mínu mati er nauðsynlegt að taka þetta skref og við ættum að setja fordæmi í að upplýsa um eignarhald fyrirtækja vegna þess að fyrst og fremst vogunarsjóðir vilja leyna eignarhaldinu. Það voru vogunarsjóðir sem felldu Ísland. Það eru vogunarsjóðir sem eiga flestar kröfur á fallin fyrirtæki í landinu þannig að umsvif þeirra hér á landi eru mun víðtækari en til dæmis innan Evrópusambandsins. Með því að gera kröfu um að öll fyrirtæki, ekki bara fjármálafyrirtæki, upplýsi um raunverulega eigendur mun það væntanlega hafa fælingarmátt á slík fyrirtæki. Þessir vogunarsjóðir, sérstaklega hrægammasjóðir, vilja leyna eignarhaldinu vegna þess að starfsemin byggir á því að skjóta sér undan skattgreiðslum og alls konar upplýsingaskyldu með því að stofna eignarhaldsfélög sem eiga í eignarhaldsfélögum. Síðan er eignarhaldsfélagið sem á eignarhaldsfélag sem á í eignarhaldsfélagi með aðsetur á aflandseyju. Þetta gerir það að verkum að enginn einn aðili hefur yfirsýn yfir það í hversu mörgum fyrirtækjum viðkomandi einstaklingur á, hversu víðtækt eignarhald hans er í viðkomandi landi, og skattyfirvöld hafa ekki heldur yfirsýn yfir það hvort viðkomandi einstaklingur hafi greitt skatt af ölum þeim arðgreiðslum sem hann hefur fengið í gegnum eignarhald sitt á mörgum eignarhaldsfélögum.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að við sýnum þjóðinni hvernig við lærum af þeim mistökum sem voru gerð hér fyrir hrun og tökum á eignarhaldi vogunarsjóða, ekki bara á fjármálafyrirtækjum heldur líka mörgum atvinnufyrirtækjum, með því að þvinga þá til að gefa upp upplýsingar um raunverulega eigendur eða einstaklinga á bak við einstaka eignarhluta. Með því að gera þessa kröfu ætti ávinningur sjóðanna af því að vera hér í hagkerfinu að verða minni, en ávinningur samfélagsins af því að ýta slíkum fjárfestum út úr samfélaginu er meiri stöðugleiki.

Vogunarsjóðir og hrægammasjóðir eru skammtímafjárfestar sem fyrst og fremst meta áhættu sína og arðsemi út frá eigendum sínum en ekki almannahagsmunum. Það er mjög mikilvægt fyrir almenning á Íslandi að tekið verði á þessu vandamáli og það eru að vissu leyti mikil vonbrigði að meiri hlutinn skuli ekki hafa áhuga á að gera það núna þegar við erum að ljúka umfjöllun um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem hafa starfsemi hér á landi.