141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með hér fyrir framan mig fréttabréf þar sem fjallað er um umræðuna innan framkvæmdastjórnar ESB og fyrirsögnin á því fréttabréfi er að í Brussel sé verið að hugsa um leiðir til þess að taka á skattsvindli og spillingu, en ógagnsætt eignarhald er einmitt talið fóstra spillingu og þess vegna þarf að tryggja gagnsætt eignarhald.

Hér á landi er mikilvægast að tryggja gagnsætt eignarhald til þess að koma einmitt í veg fyrir það sem gerðist fyrir hrun, eins og hv. þingmaður benti á, að fyrirtæki noti aflandsfélög sín til að auka eigið fé í fyrirtækjum án þess að nokkur átti sig á því að um er að ræða sama aðila og jafnvel með láni frá viðkomandi fyrirtæki.

Varðandi aðgengi að þessum upplýsingum, sem við erum í raun og veru að tryggja að ríkisskattstjóri hafi á einum stað með breytingartillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar, þá verður hægt að biðja um þær hjá ríkisskattstjóra og fá aðgang að þeim. Það er mjög algengt meðal starfsmanna í viðskiptafræðideildum, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, að skoða ársreikninga og upplýsingar um eignarhald fyrirtækja sem menn fá annaðhvort í gegnum gagnagrunna þar sem gögnin hafa verið keypt af viðkomandi skattyfirvöldum eða öðrum sambærilegum yfirvöldum og seld viðskiptadeildum eða háskólum.