141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég skrifaði einmitt Evrópusambandinu út af þessu og í svari frá þeim kom fram að þeir eru ekki að velta fyrir sér þeirri aukningu á eigin fé sem hægt er að sýna fram að geti orðið með því að hlutafélög kaupi hvert í öðru. Það þarf minnst þrjú til. Þeir hafa hreinlega ekki velt fyrir sér þeim möguleika. Hins vegar veit ég að þeir hafa mikinn áhuga á því að hvernig menn geti skotið undan sköttum. Það er hægt að láta fyrirtæki sem er á Tortólu eða annars staðar mynda hagnað einmitt þar og koma þannig hagnaði undan skatti. Þetta er vissulega skattavandamál líka. Svo er þetta ekki hvað síst spillingavandamál vegna þess að menn geta bæði dulið eignarhald, falið það, aukið eigið fé og komið fram sem mismunandi aðilar í hluthafaskrá, t.d. banka, þannig að menn sjá ekki hinn raunverulega eiganda. Þetta er vandamál sem ég held að þurfi að leysa alþjóðlega og verður væntanlega leyst alþjóðlega þannig að menn muni upplýsa um alla eigendur á netinu svo að hægt verði að rekja það strax.

Eins og þetta er sett upp hérna óttast ég að eignarhald verði ekki rekjanlegt. Menn tala um að halda utan um þessa skrá, hún verði geymd og svo verði hún bara gleymd. Það er ekkert voðalega auðvelt að finna svona hringi ef menn þurfa alltaf að spyrja um eitt og eitt fyrirtæki í senn. Það getur orðið ansi langsótt, sérstaklega af því að hugmyndaauðgin í því að stofna fyrirtæki og hafa þau nægilega lítil til að fara undir alla grunsamlega þröskulda er endalaus. Þegar hagsmunir eru miklir skiptir kostnaðurinn við að stofna eitt lítið einkahlutafélag ekki miklu máli.