141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er búið að fara ágætlega yfir málið. Rætt hefur verið um heimild sem var í frumvarpinu til að hafa ársreikninga á öðrum tungumálum en það er búið að draga hana til baka með þeim rökum að annars séum við að fara gegn íslenskri málstefnu frá árinu 2009. Mér sýnist samt sem áður, miðað við núverandi lög, að við séum að fara gegn þeirri málstefnu sem er í lögum. Það er kannski spurning hvort við breytum þessu annaðhvort í takt við málstefnuna eða breytum lögunum um málstefnuna því að ég held að í besta falli sé mikill ósiður að hafa lög sem ekki stendur til að fara eftir.

Farið hefur fram nokkur umræða um gagnsæissjónarmiðin og þar vegast á nokkur sjónarmið eins og hér hefur komið fram. Eitt er að það að eiga í hlutafélögum er hugsað sem ákveðið sparnaðarform fyrir marga og er eitthvað sem við ættum að ýta undir. Menn hljóta þá að spyrja af hverju eigi að upplýsa um eitt ákveðið sparnaðarform en ekki annað. Eins og komið hefur fram í umræðunni þurfa ekki endilega að liggja einhverjar slæmar ástæður að baki ef fólk vill ekki að þær upplýsingar liggi á lausu í hvaða hlutafélögum það eigi eða hvar sparnaður þess yfir höfuð liggi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er það svo að fólk hefur tilhneigingu til að reyna að sækja í það, jafnvel nánustu ættingjar. Það er auðvitað ekki almenn regla og er vonandi undantekning en samt sem áður bera allir þeir sem hafa starfað í kringum slíkt vitni um það.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst vera stóra málið í þessu er að ef við teljum hættulegt að hafa ákveðið eignarhald á félögum þurfum við að ræða það í samhengi við lög um fjármálafyrirtæki. Ef við höfum áhyggjur af því að aðilar sem hafa beint og óbeint og með allra handa klækjabrögðum komist yfir félög séu að koma sér í markaðsráðandi stöðu eða einhverja slíka stöðu án þess að vitneskja sé um það, hlýtur það stóra eftirlit sem við erum með að eiga að hafa eftirlit með því. Þá er ég að vísa í Fjármálaeftirlitið því að hér er auðvitað að stærstum hluta um að ræða fjármálafyrirtæki, þar er stærsta einstaka hættan. Við verðum að ganga úr skugga um að fylgst sé með því og komið í veg fyrir að hér geti myndast hringferlar eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur margsinnis minnst á. Sömuleiðis að fylgst sé með því að þessum kerfislega mikilvægu fyrirtækjum sem fjármálafyrirtækin eru, sem eru því miður beint og óbeint ansi mikið í fangi skattgreiðenda, stafi ekki hætta af eignarhaldinu.

Menn hafa talað mikið um að eignarhaldið fyrir bankahrun hafi ekki verið nægjanlega gott eða ekki uppfyllt þau skilyrði sem þyrfti að hafa um fjármálastofnanir. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því en eitt er alveg öruggt að það eignarhald sem hefur myndast eftir bankahrun er ekki æskilegt. Af hverju ekki? Það er ekki æskilegt að aðilar sem hafa skammtímahagsmuni að leiðarljósi og hafa ekki áhuga á því að eignast íslenskar fjármálastofnanir eigi fjármálastofnanir okkar. Hér hefur verið bent á að ef og þegar, vonandi, við fellum niður gjaldeyrishöftin og lausn finnst á því — og þetta tengist þrotabúum gömlu bankanna, hugsanlega nauðasamningum eða gjaldþroti — geti myndast sú hætta að þeir sem sitji þá uppi með eignirnar, þ.e. tvo af þremur stærstu íslensku bönkunum, hafi hag af því og áhuga á að reyna að ná eins miklum eignum út úr þeim fyrirtækjum og mögulegt er. Þeir geri það vegna þess að þeir hafa skammtímahagsmuni að leiðarljósi.

Á þetta hefur verið bent og skrifaðar um það greinar og ég held að þetta séu varnaðarorð sem full ástæða sé til að taka alvarlega. Mér finnst stærsta einstaka málið vera það, með fullri virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum, að við fylgjumst með því að fjármálastofnanir okkar beri ekki skaða eða hættu út af eignarhaldi þeirra. Menn hafa bent á að ef gjaldeyrishöftin verða áfram, sem vonandi verður ekki en ýmislegt bendir þó til, gefist aukin tækifæri fyrir eigendur banka, eigendur sem hugsa ekki um hagsmuni þessara bankastofnana til lengri tíma heldur vilja hagnast á skömmum tíma, að fara á svig við gjaldeyrishöftin og taka eignir út úr viðkomandi fjármálastofnunum.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér vera stærsta einstaka málið. Eignarhald er mjög kvikt og það er mjög erfitt að fylgjast með því frá mínútu til mínútu í hlutafélögum á Íslandi og kannski engin sérstök ástæða til þess. Það hefur að minnsta kosti ekki verið bent á hætturnar sem þar geta legið. Við skulum heldur ekki gleyma því að þrátt fyrir að hér sé um að ræða upplýsingar sem geta verið aðgengilegar er heljarinnar mikið verk að vinna úr þeim. Það eru örugglega til dæmi þess að menn fari í að vinna úr slíkum upplýsingum með það í huga að gera einstaklinga sem eiga það ekki skilið tortryggilega. Það er eitthvað sem við komumst aldrei hjá en það er engin sérstök ástæða til að ýta undir slíka hegðun eða gera hana auðveldari.

Við höfum ekki tekið hér á þætti sem hv. þm. Pétur Blöndal minntist á, þ.e. persónuverndina og hvort eðlilegt sé að hafa öðruvísi reglur um eignarhald hjá einstaklingum og hlutafélögum með takmarkaða ábyrgð. Þá er vísað til þess að þegar eignarhald í ákveðnum félögum er skoðað gildi sérregla um hlutafélögin, það eigi að upplýsa um þau, en önnur regla gildi um einstaklingana. Að vísu hlýtur þetta svolítið að skarast við það sem við erum að reyna að ná fram varðandi eignarhald bankanna. Við erum að reyna að fara í gegnum þann frumskóg sem eru hin ýmsu eignarhaldsfélög og hlutafélög og finna hina raunverulegu eigendur. Ég vísa aftur til þess, virðulegi forseti, að ég tel skynsamlegt að fara yfir þessi mál saman, þ.e. þetta mál og lög um fjármálafyrirtæki. Ég veit að við erum á endasprettinum en sem betur fer hefur vinnan í nefndinni verið góð og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur borið gæfu til að gæta sanngirni í umfjöllun í nefndinni og taka tillit til sjónarmiða allra, ekki bara stjórnarliða.

Virðulegi forseti. Það má því velta því fyrir sér, vegna þess að við tökum þessi mál ekki oft upp, hvort við ættum að klára þetta mál endanlega í samhengi við lög um fjármálafyrirtæki því að við munum ekki fá mörg tækifæri á þessu vori til að ganga frá þeim málum. Vinnan hefur verið ágæt og búið er að upplýsa margt í tengslum við þetta en ég veit ekki enn þá hvernig eftirlitinu er fyrir komið. Ég veit að fjármálaeftirlit hlýtur að teljast mjög öflugt á Íslandi, sú stofnun hér er hlutfallslega stærst í heimi eftir því sem ég best veit. Ég veit að Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að skoða hverjir eru eigendur bankanna og hvernig breytingar á því eru í tíma, ekki bara árlega heldur innan árs. En það er til lítils að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem gerðist árið 2008 eða fyrr. Við hljótum í lagasetningu um eftirlit með fjármálastofnunum og öðru slíku að horfa til framtíðar og í þessu tilfelli erum við að tala um nánustu framtíð.

Virðulegi forseti. Ég tel skynsamlegt að skoða þessi mál saman því að þótt hér sé ekki verið að ræða um fjármálafyrirtæki erum við samt sem áður að tala um eigendur fjármálafyrirtækja. Ég tel því eðlilegt að fara yfir þetta mál í tengslum við lög um fjármálafyrirtæki, en það mál er nokkuð langt komið í nefndinni og ég á von á að við getum klárað það í vor.