141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frumvarp í 3. umr. um sameiningu á rannsóknarnefndum samgönguslysa. Við 2. umr. var fallist á af hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. og yrði tekið efnislega fyrir þar. Ég fagnaði því mjög en varð hins vegar fyrir miklum vonbrigðum með hvernig nefndin fjallaði um málið. Fulltrúar frá rannsóknarnefnd sjóslysa og innanríkisráðuneytinu voru boðaðir til fundar, en fólkið frá innanríkisráðuneytinu mætti í raun og veru aldrei á fundinn heldur sat frammi og var síðan sent heim. Það var mjög bagalegt að fá ekki að heyra frá innanríkisráðuneytinu vegna þess að mjög æskilegt hefði verið að fara yfir málið með bæði fulltrúum frá rannsóknarnefnd sjóslysa, helst auðvitað frá öllum nefndunum, og innanríkisráðuneytinu samhliða. Niðurstaðan varð ekki sú þótt leitað væri eftir því á viðkomandi fundi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það voru ákveðin vonbrigði þegar maður hafði gert sér vonir um að unnið yrði öðruvísi.

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér, af því að ég er að mæla hér fyrir nefndaráliti, hvort ég hafi ekki meira en 15 mínútur í tíma. Ég bið forseta um að athuga það.

Þá ætla ég að fjalla efnislega um málið. Auðvitað eru mikil vonbrigði að það sé unnið svona. Ég hef miklar efasemdir um að markmið laganna nái fram að ganga, þ.e. að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir.

Sú spurning blasir við hvort það geti hugsanlega verið eitthvert pólitískt deiluefni sem snýr að þessu máli, en það er að sjálfsögðu ekki þannig. Málið fjallar eingöngu um faglega vinnu. Ég hef fylgst með málinu alveg frá því að það var fyrst lagt fram og þetta er þriðja atrennan. Ég held að þegar ákveðin niðurskurðarkrafa var gerð á ráðuneytin eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar, mismunandi eftir málaflokkum, þá hafi þetta verið eitt af þeim málum sem innanríkisráðuneytið, eða samgönguráðuneytið á þeim tíma, hafi ætlað að nota til þess að ná fram þessari hagræðingu. — Það væri auðvitað mjög æskilegt að sá hluti efnahags- og viðskiptanefndar sem staddur er í þingsal mundi halda fundinn frammi eða þá fara bara út á nefndasvið eða slíta fundi. [Hlátur í þingsal.] — Út úr umsögn skrifstofu fjármálaráðuneytisins má lesa að sú hagræðing sem átti að fara fram hjá samgönguráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu mundi ganga fram með þeim hætti að nefndirnar yrðu sameinaðar.

Hins vegar er ekki verið að fara þá leið hér. Gert er ráð fyrir auknum kostnaði miðað við þær forsendur sem eru í fjárlögum 2012. Sá kostnaður er um 6 millj. kr. Það hefur ekki verið hrakið vegna þess að það blasir við öllum sem vilja það sjá að fari menn þessa leið og sameini nefndirnar eins og hér er lagt til þá mun verða meiri þörf fyrir aðkeypta þjónustu. Þann varnagla verður að setja við og enginn hefur getað hrakið það með neinum rökum. Það er bara almenn skynsemi. Auka á útgjöldin um 6 millj. kr. á milli ára. Í þeirri umsögn sem ég vitna til kemur fram að þessi niðurskurðarkrafa og sá sparnaður sem átti að nást með sameiningu nefndanna er til þess að innanríkisráðuneytið haldi sér innan þess fjárlagaramma sem því ber að gera til þess að ná fram markmiðum hæstv. ríkisstjórnar í jöfnuði í ríkisfjármálum.

Hæstv. forseti. Við þekkjum hins vegar hvernig það hefur gengið eftir, það er allt í skötulíki því að þeir rammar sem einstaka fagráðuneyti eiga að starfa eftir hafa aldrei nokkurn tímann haldið. Það getum við rifjað upp með því að fara yfir fjáraukalög og fjárlög og þar fram eftir götunum. Sum ráðuneyti hafa auðvitað staðið sig betur en önnur og sumar stofnanir hafa staðið sig betur en aðrar. Af hverju skyldi ég segja þetta? Vegna þess að þetta eru staðreyndir málsins. Það væri hægt að halda langar ræður um hvernig staðið hefur verið að því að ná fram markmiðum í ríkisfjármálum og því kem ég inn á þetta í upphafi ræðu minnar. Ég held að þetta hafi verið tilgangurinn og síðan hanga menn eins og hundar á roði, eins og sagt er stundum, og neita að horfast í augu við staðreyndir, að mínu mati.

Mig langar að rifja eitt dæmi upp þessu til staðfestingar. Við fjáraukalagagerðina árið 2011 fékk Umferðarstofa 85 millj. kr. Það hafði líka gerst árið áður og grunnurinn að þeirri beiðni var sú að þessi ákveðna stofnun er rekin fyrir mikið af mörkuðum tekjum. Það staðfestir mikilvægi þess að breyta því, að menn færi markaðar tekjur inn í ríkissjóð og setji síðan viðkomandi stofnun á fjárlagaliði. Þá gerðist nokkuð merkilegt vegna þess að meiri hlutinn var ekki ánægður með það að setja 85 millj. kr. til viðbótar í fjáraukalögum ársins 2011 inn í svona eftirlitsstofnun, því á sama tíma voru hv. stjórnarþingmenn að taka ákvarðanir um að skera niður í mjög viðkvæmum málaflokkum. Það sem gerðist við afgreiðslu meiri hlutans og þingsins á tillögunni var að hún var skilyrt, um það má lesa í nefndaráliti meiri hlutans.

Á móti þessum 85 millj. kr. í fjáraukalögum ársins 2011 var skýlaus krafa meiri hlutans og þingsins um að sama upphæð væri skorin af innanríkisráðuneytinu fyrir fjárlög ársins 2012 samþykkt. Það var hins vegar ekki gert í fjárlagavinnunni, sem fór þó fram ekki nema nokkrum dögum seinna. Af hverju skyldi ég vera að draga þetta fram? Vegna þess að ég held að menn séu á villigötum og séu fastir inni í þeim ramma sem var upphaflega settur gagnvart hagræðingarkröfunni á ráðuneytin.

Ekki getur verið pólitískt ágreiningsefni um það að fækka slysum og auka öryggi íbúanna og þegnanna, alls ekki. Það er hins vegar spurning hvaða leið menn fara að því markmiði og um það er ég ekki sammála meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Skyldi það vera vegna þess að ég hafi eitthvað meira vit á því en þeir hv. þingmenn sem þar sitja? Nei, það er ekki vegna þess. Það er vegna þess að þeir aðilar sem fjalla um og sjá um þessi mál, það er að segja þessar þrjár rannsóknarnefndir, benda á það í umsögnum sínum. Þær vara við þessari vegferð. Fagfólkið sem vinnur rannsóknarvinnuna, við rannsóknir sjóslysa, umferðarslysa og flugslysa, varar við að fara þessa leið og bendir á að markmið laganna sé í verulegri hættu og muni ekki nást.

Með allri sanngirni gagnvart því góða starfsfólki sem er í innanríkisráðuneytinu þá hef ég ekki verið í vafa um hvað beri að gera eftir að hafa lesið umsagnir og hlustað á þá sem komu fyrir nefndina á sínum tíma, þegar ég átti sæti í hv. samgöngunefnd. Skyldi það vera vegna þess að nefndarmenn eða forstöðumenn þessara stofnana væru að verja starf sitt eða eitthvað svoleiðis? Nei, það er ekki vegna þess. Allir þeir starfsmenn sem fyrir eru eru ráðnir áfram. Síðan er óhætt að taka fyrir þær ábendingar sem til dæmis koma frá fulltrúum rannsóknarnefndar sjóslysa. Þeir benda á að það mætti taka yfirstjórnina og sameina hana en hafa rannsóknarnefndirnar sjálfstæðar eftir sem áður. Af hverju skyldi þetta vera? Það er vegna þess að menn hafa áhyggjur af faglega þættinum.

Þá skulum við fara aðeins yfir það hvernig þessar nefndir eru skipaðar. Ég þekki til rannsóknarnefndar sjóslysa vegna minna fyrri starfa. Þar er lögmaður, skipstjórnarmenntaður maður, vélstjórnarmenntaður maður, skipaverkfræðingur og í þessum dúr er nefndin skipuð, þ.e. hver einstaklingur sem situr í nefndinni hefur fagþekkingu á ákveðnu sviði. Eru stjórnarlaunin há hjá þessum einstaklingum? Nei, þau eru lág. Það er gert ráð fyrir því að útgjöldin muni aukast. Þetta er eins konar áhugamál sem menn sinna með því að vera í þessum nefndum.

Þegar menn þynna þetta út í eina nefnd, þó að það séu sjö aðilar sem sitja í henni, er fyrirséð að aðkeypt sérfræðiþjónusta og þörfin fyrir hana mun aukast. Það er óumdeilt. Síðan er spurning hve mikil hún verður. Ég tel að þetta sé spor í vitlausa átt og það sem er kannski mikilvægast að hugsa um er að fyrir þá menn sem vinna í rannsóknarnefndunum er gríðarlega mikilvægt að njóta trausts og trúnaðar viðkomandi starfsstétta. Það er eiginlega grunnurinn, að þeir sem stýra nefndunum, sitja í nefndunum og þá aðallega starfsmennirnir njóti trausts og trúnaðar. Það er áhyggjuefni ef það trausta samband sem nú er fyrir brestur, því að þá munu markmið laganna ekki ganga eftir. Ekki er hægt að deila um það.

Af hverju er verið að fara þessa vegferð þegar fyrir liggur að ekki verður sparnaður af henni? Ég held að það hafi verið upprunalega áætlunin eins og ég kom vel inn á í upphafi ræðu minnar. Hefur starfið gengið vel? Hefur það gengið illa? Það hefur nefnilega gengið mjög vel. Traust og trúnaður ríkir á milli rannsóknarnefndanna og þeirra aðila sem eru að rannsaka, eins og til dæmis sjóslysanefndar, flugslysanefndar og þar fram eftir götunum. Þá verður maður að spyrja sig af hverju menn hlusti ekki betur. Ég staldra við það því ég er ekki sáttur við það. Það háir okkur stjórnmálamönnunum mörgum hverjum að við erum meira fyrir að tala en hlusta og sumir heyra ekki þótt þeir hlusti, eða taka ekki mark á því. Af hverju skyldi ég segja þetta? Hvað stendur í umsögnum frá viðkomandi nefndum? Ég vil vitna orðrétt í umsagnirnar til þess að reyna að draga fram þær alvarlegu ábendingar sem hér eru á ferð. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með þessu frumvarpi sé dregið úr sjálfstæði rannsóknarnefndanna sem hefur verið styrkt með núgildandi lögum.

Hvergi er sýnt fram á að hver samlegðaráhrifin yrðu við slysarannsóknir í einstökum greinum. Slysarannsóknir krefjast mikillar sérþekkingar og reynslu, samanber þá staðreynd að það gilda ekki sömu alþjóðlegu reglur um rannsókn slysa og að sérstök sjónarmið gilda um hverja tegund starfsemi eðli málsins samkvæmt. […]

Sátt ríkir um núgildandi fyrirkomulag slysarannsókna, en með frumvarpinu er umhverfið sett í óþarfa óvissu.“

Það er auðvitað grunnurinn að því að markmið laganna gangi eftir. Hverjir skyldu vera að benda á þetta? Það eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Slysavarnafélagið Landsbjörg sem benda á þessar staðreyndir. Nei, það er ekki hlustað á þær. Þetta er í þriðja sinn sem málið kemur fyrir þingið og mjög dapurlegt er að sjá það sem kemur fram í umsögn frá rannsóknarnefnd sjóslysa og lýsir í raun og veru viðhorfinu við vinnslu þessa máls. Ég vitna, með leyfi forseta:

„RNS vill vekja athygli á því að við umfjöllun frumvarpsins þegar það hefur áður verið lagt fram hefur í engu verið tekið tillit til athugasemda RNS og því verður að telja ólíklegt að það þjóni tilgangi að eyða miklum tíma í að senda athugasemdir við frumvarpið. Því álykta má sem svo að athugasemdum sé enginn gaumur gefinn.“

Er ekki mjög dapurlegt að standa uppi með svona athugasemdir? Hvernig skyldi vera skipað í rannsóknarnefndir sjóslysa? Eða flugslysa? Þetta eru fulltrúar, eins og ég lýsti hér áðan, sem eru skipaðir af viðkomandi ráðherra með þessu markmiði og allir skrifa undir þetta. Stjórnin er á bak við þá sem standa að þessu áliti. Nei, það skal ekki hlustað á það. Það á ekki að vera sparnaður, það liggur fyrir í umsögninni um frumvarpið, en menn skulu taka áhættuna af því að setja faglega starfið, þann mikla trúnað og traust sem hefur ríkt, þá miklu sátt og það góða starf sem þessar nefndir hafa unnið í uppnám. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum hv. þingmenn meiri hlutans eru tilbúnir að taka slíka áhættu án þess að færa fyrir því efnisleg rök. Það er mjög athyglisvert sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans og ég vil fá að vitna í það, með leyfi virðulegs forseta.

Gríp hér niður í álit meiri hlutans sem leggur til að málið verði samþykkt:

„Umsagnaraðilar gerðu þó ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Flestar þeirra varða tæknileg atriði einstakra frumvarpsgreina en sameiginlegt grunnstef mátti þó finna. Hjá fulltrúum núverandi rannsóknarnefnda var það sjónarmið áberandi að sameining nefndanna kunni að koma niður á faglegum þáttum rannsóknanna.“

Er ekki umhugsunarefni fyrir okkur þegar við samþykkjum lög þegar umsagnaraðilar, sem þekkja best til, gera slíkar athugasemdir? Ég vitna ekki í þá umsögn sem kemur frá rannsóknarnefnd flugslysa. Það er búið að verða við einstaka breytingum sem hún leggur fram, en hún bendir hins vegar á margt því til viðbótar sem ekki hefur verið brugðist við og ekki koma breytingartillögur við milli 2. og 3. umr.

Eftir að búið er að fara yfir þær athugasemdir sem koma frá fagaðilunum sem þekkja best til í máli meiri hlutans þá kemur þessi setning hér, með leyfi forseta:

„Á fundum nefndarinnar og í gögnum sem lögð voru fyrir hana komu fram gagnstæð sjónarmið af hálfu innanríkisráðuneytisins.“

Gagnstæð sjónarmið. Hvar eru þau? Hverjir hafa meiri þekkingu á þessu, með fullri virðingu fyrir því góða starfsfólki sem er í innanríkisráðuneytinu, fagaðilarnir eða ráðuneytið? Eftir að hafa hlustað á og fjallað um málið áður er ekki vafi í mínum huga. Þegar málið fór af stað fyrst var þessi fjárhagslegi ávinningur. Núna er hann farinn en samt leggur meiri hluti þingsins til að það verði samþykkt.

Síðan kemur líka, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið telur verulegar líkur á því að með sameiningu núverandi rannsóknarnefnda í eina rannsóknarnefnd verði unnt að koma þekkingu og starfskröftum sem þegar eru fyrir hendi í eina sterka og öfluga sameinaða nefnd.“

Það gengur þvert á þær ábendingar sem koma frá fagaðilum. Það sem kemur fram hjá meiri hlutanum er dálítið merkilegt og ég skil að meiri hlutinn hafi ákveðnar áhyggjur, því í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram ákveðin leiðsögn í málinu.

Þá vil ég vitna orðrétt, með leyfi forseta:

„Vart er hægt að líta fram hjá því að umsagnaraðilar hafa á mörgum stigum haft góð tækifæri til þess að gera athugasemdir við frumvarpið og að tekið var tillit til fjölmargra athugasemda þeirra við frumvarpsgerðina.“

En hvað segir í umsögn frá rannsóknarnefnd sjóslysa? Þar stendur að menn sjái engan tilgang í að gera athugasemdir vegna þess að ekki hafi verið hlustað á þær. Hérna stemmir nú ekki allt saman.

Það er auðvitað eftirtektarvert, þar sem ég tel að meiri hlutinn hafi nú smávegis efasemdir í málinu því í álitinu stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Meiri hlutinn minnir á það eftirlitshlutverk sem Alþingi og nefndir þess fara með gagnvart framkvæmdarvaldinu og áskilur sér fullan rétt til þess að grípa inn í ef þörf krefur. Það er mat meiri hlutans að rétt sé að láta reyna á þá samþættingu sem frumvarpið boðar.“

Meiri hlutinn gerir sér held ég grein fyrir því, er eins og ég sagði með efasemdir, að það sé umhugsunarefni fyrir alla að taka mark á því sem fram kemur í umsögnum frá þeim aðilum sem vinna að málinu. Ég skil ekki hvernig á því stendur að meiri hlutinn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sé tilbúinn að taka áhættuna af því að fara þessa vegferð. Það er mér alveg óskiljanlegt. Það er ekki fjárhagslegur ávinningur. Miklar efasemdir eru um faglega þáttinn frá fagaðilunum sem þekkja best til. Nei, það skal ekki hlustað á það, það skal fara þessa leið.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mjög sérkennilegt er að þegar málið var tekið inn í nefndina milli 2. og 3. umr. til þess að fara yfir það var ráðuneytinu er haldið fyrir utan nefndarfundinn. Fulltrúar ráðuneytisins komu ekki inn og færðu röksemdir þar sem fulltrúar frá rannsóknarnefnd sjóslysa gátu brugðist við. Nei, þeir eru bara látnir sitja frammi og svo þegar maður vill fara að ræða málið áfram þá er sagt: Heyrðu, þetta er bara komið gott. Við erum sannfærð um að þetta sé svona. Málið er tekið af dagskrá, næsta mál tekið fyrir, ráðuneytisfólkið situr frammi og er síðan sent heim. Þessi vinnubrögð eru auðvitað alveg hreint með ólíkindum.

Síðast en ekki síst er ákall frá mér inn í nánast tóman þingsal. Hér situr hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, sem er formaður umhverfis- og samgöngunefndar en var ekki á þessum nefndarfundi sem ég var að vitna hér til áðan. Ég er ekki að deila á hann sem einstakling, þann ágæta hv. þingmann. Skyldi ekki vera umhugsunarvert, miðað við þær ábendingar sem Alþingi hefur fengið við margar lagasetningar, bæði á þessu kjörtímabili og á fyrri kjörtímabilum, að hafa ekki tekið meira mark á því?

Ég held að við gætum öll verið sammála um það. Þess vegna er mér þetta óskiljanlegt. Markmiðið, eins og ég rakti hér í upphafi, var að ná fram hagræðingu þannig að menn héldu sig innan fjárlagaramma viðkomandi ráðuneytis. Þeir hafa reyndar aldrei virkað, þeir eru bara eintóm vitleysa. Síðan festast menn í þessu neti og halda sig bara þar. Það er eins og að ef menn leggi þetta mál til hliðar þá sé einhver sigurvegari eða tapari. Það er ekki þannig og mín skoðun er sú að við megum ekki og við eigum ekki að gera tilraunir sem þessar sem felast í því að sameina rannsóknarnefndirnar og búa til svokallaða rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Ég er hins vegar ekkert á móti því, það kemur reyndar fram í umsögninni frá rannsóknarnefnd sjóslysa, að setja nefndirnar undir einn strúktúr með sameiginlegan rekstrarkostnað, í húsnæði eða bókhaldi, stjórnsýslu, símsvörun og öllu þessu. Lagt er til að menn skoði það, en faglegi þátturinn er það sem menn hafa áhyggjur af, eðli málsins samkvæmt. Ég þekki vel til rannsóknarnefndar sjóslysa, eins og ég sagði vegna fyrri starfa minna, og auðvitað veit ég, eins og þeir sem eru í þessu umhverfi á hverjum tíma, að öllu máli skiptir hvernig traust og trúnaður er á milli þeirra einstaklinga sem þar vinna og stýra þeirri vinnu, upp á upplýsingagjöf hjá þeim sem lenda í óhöppum.

Það er alveg grundvallaratriði til þess að við getum haldið áfram að þróa þessar rannsóknir. Hvað skyldi hafa gerst sem snýr að slysum til sjávar? Þar hefur orðið gríðarlega mikil framför. Bæði hvað varðar rannsóknir og ekki síst verður líka að þakka það Slysavarnaskóla sjómanna, þ.e. fræðslunni, og sem betur fer hefur slysum fækkað mjög mikið. Það er árangur sem hefur náðst. Ég hef ekki heyrt neinn tala um að hann sé ósáttur við þetta starf í dag. Enginn hefur haldið því fram hér í þessari umræðu hvorki núna né á fyrri stigum. Þá spyr ég bara: Hvers vegna? Það er ekki fjárhagslegur ávinningur. Mjög miklar efasemdir eru um faglega þáttinn sem gæti farið til verri vegar og þá ganga markmið frumvarpsins auðvitað ekki eftir, sem kemur skýrt fram í áliti meiri hlutans.

Mér er algjörlega óskiljanlegt af hverju menn halda áfram á þessari vegferð. Þetta er svipað og menn væru að sigla beint í strand og vissu af því en vildu ekki skipta um stefnu af því að þeir hefðu einhvern tíma tekið þá ákvörðun að þessi stefna væri rétt. Svo kæmi hins vegar í ljós að hún væri röng. Þannig upplifi ég þetta mál því ávinningurinn er klárlega ekki fjárhagslegur og hann er ekki faglegur. Hvers vegna þá? Skyldi það vera eins og ég sagði í upphafi, að upphaflegt markmið ráðuneytisins hefði verið að halda sig innan fjárlagarammans, sem er auðvitað ekkert nema grín, þeir hafa ekki virkað, og síðan hafa menn haldið áfram með málið þó svo að það sé í raun og veru strandað en vilja ekki horfast í augu við það? Mín persónulega skoðun er alveg klár á því að menn eiga ekki og mega ekki taka sénsa sem þennan.