141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil líka segja að ég tel að enginn hv. þingmaður hafi annað í hyggju en að hlúa vel að rannsóknum á samgönguslysum, sem er meginmarkmið frumvarpsins. En ábendingar þeirra sem best þekkja til og vinna við þessa hluti daglega eru umhugsunarefni fyrir okkur öll, ábendingar aðila sem hafa náð gríðarlega miklum árangri og myndað traust og trúnað sem tekið er eftir í viðkomandi starfsstöð. Ég er mjög hugsi yfir því ef við ætlum að halda af stað í þessa óvissuferð.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að meiri hluti nefndarinnar — og ég orðaði það þannig að hann hefði efasemdir, vegna þess að það er það sem stendur eftir eftir mat annars vegar fagaðila og hins vegar ráðuneytisins.

Ég vil líka draga það fram í þessari umræðu, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að í upphaflegu hugmyndunum var reiknað með því að með sameiningu mundum við spara. Við þekkjum það síðan, ég og hv. þingmaður, að þegar menn eru rukkaðir um gögnin sem eiga að sýna fram á hinn raunverulega sparnað og hvernig hann er teiknaður — öðruvísi en einhverjar línur á blaði — þá eru efndirnar engar og gögnin sem koma úr viðkomandi fagráðuneytum hvorki fugl né fiskur. Ekki var sýnt fram á það í þessu máli í upphafi hvernig ætti að spara, og síðan er horfið af þeirri braut, útgjöld eru aukin en einnig er tekin áhætta með faglega þáttinn sem ég get ekki sætt mig við.