141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla mála fram að þinglokum.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er kominn hingað til að minna hæstv. forsætisráðherra á hversu skammt er eftir af þessu þingi, eru það ekki átta þingfundadagar? Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé ástæða til að nýta þá daga til að taka á brýnu málunum sem þoldu enga bið þegar ríkisstjórnin tók við fyrir fjórum árum. Ég er auðvitað að tala um skuldastöðu íslenskra heimila. Færi ekki vel á því að mati hæstv. forsætisráðherra að nýta þann tímann vel sem eftir er af þinginu til að standa við einhver af þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin veitti þegar hún tók við fyrir næstum því fjórum árum? Eða til að bregðast við stöðu eldri borgara og öryrkja og leiðrétta hlut þeirra, eins og ég hafði reyndar talið að stæði til að gera fyrir lok kjörtímabilsins? Fyrirkomulagið sem tekið var upp fyrr á kjörtímabilinu, þær skerðingar sem eldri borgarar og öryrkjar verða fyrir, hafa ekki enn verið afnumdar og mjög vandséð að hagkvæmt sé fyrir ríkið yfir höfuð að viðhalda því fyrirkomulagi sem heldur í rauninni aftur af öllum sparnaði í landinu. Fólk hefur engan hvata til að leggja fyrir til efri áranna og það getur ekki verið æskilegt. Annars vegar er um réttlætismál að ræða og hins vegar um hagkvæmnismál. Sama á reyndar að sjálfsögðu við um stöðu heimilanna.

Virðulegi forseti. Færi ekki vel á því að hæstv. forsætisráðherra tæki af skarið á síðustu dögum þingsins og ákvæði að nota þá til að klára vinnuna sem átti að hefjast fyrir fjórum árum?