141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

staða Íbúðalánasjóðs.

[10:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að málið um Íbúðalánasjóð hafi komið upp síðasta haust. Það hefur legið fyrir allt kjörtímabilið að taka þurfi sérstaklega á vanda Íbúðalánasjóðs. Það er alveg ljóst að við getum ekki haldið áfram með sjóðinn í þeirri mynd sem hann er. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því að farið yrði í að breyta starfsemi sjóðsins. Þess vegna er ég ósammála hæstv. ráðherra um að það sé eitthvert vandamál sem hafi komið upp síðastliðið haust.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað vísað í að einhver vinnuhópur sé í gangi. Hversu lengi eiga vinnuhópar ríkisstjórnarinnar að starfa? Er það heilt kjörtímabil, tvö kjörtímabil eða þrjú kjörtímabil, áður en einhverjar tillögur koma fram?

Ráðherrann segir að við skulum taka góða umræðu um það í þinginu. Við höfum margoft gert það á kjörtímabilinu en nú er kominn tími til að grípa til aðgerða og segja okkur frá því hvernig eigi að taka á vanda Íbúðalánasjóðs, hvert skuli stefnt og hvernig það rími allt saman við efnahagsstjórnina í landinu.