141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

staða Íbúðalánasjóðs.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það sem ég er að vitna í að hafi komið upp síðasta haust er að við þurftum að taka ákvörðun um eiginfjárframlag inn í Íbúðalánasjóð. Það er sú ákvörðun sem ég er að vísa til. Ég er líka að vísa til þess að skilað var niðurstöðu um stöðu sjóðsins síðastliðið haust, vanda sem við vissum alveg að væri til staðar en niðurstaða í þann vanda fékkst á síðastliðnu hausti. Ég er að vísa í það.

Það sem ég vil líka nefna er að það sem við erum að gera í framhaldi af þeirri vinnu sem skilað var núna á haustdögum skiptir máli. Það var settur á laggirnar vinnuhópur, aðgerðahópur sem er að vinna að breytingum á ýmsum þáttum í starfsemi Íbúðalánasjóðs, t.d. að búa til sérstakt félag utan um fullnustueignir. Menn þurfa líka að vinna að því að þar er vaxtamunurinn óviðunandi, hann er allt of lágur. Á því er verið að taka núna og verið að vinna í því.

Eins og kom fram á haustdögum, ef hv. þingmaður hefði fylgst með, verður áfangaskýrslu og stöðuskýrslu skilað í lok febrúar og þá munum við sjá hvaða árangri menn sjá fyrir sér að aðgerðirnar geti mögulega skilað og hver næstu skref hins opinbera eigi að vera, þ.e. ríkissjóðs. Ég óska líka eftir því að ef við tökum umræðu um það í þinginu segi hv. þingmaður okkur hvaða breytingar það eru sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera á sjóðnum.