141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.

[10:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra frá hæstv. ráðherra að hann sé sammála því að mikilvægt sé að fá úr skorið fyrir dómstólum um lögmæti framkvæmdar á verðtryggðum neytendalánum. Ég mundi vilja fara fram á að hæstv. ráðherra óski eftir upplýsingum frá stjórn sjóðsins, sem situr þar á hans vegum, og ríkislögmanni hver sé ástæðan fyrir því að farið hefur verið fram á frávísun. Ég held að mjög brýnt sé að fá efnislega umfjöllun um þetta mál. Hið sama gildir um önnur mál sem hafa verið höfðuð.

Ég hef látið vita af því að ég hef í hyggju að flytja breytingartillögu við frumvarp um neytendalán þess efnis að tryggð verði flýtimeðferð á þessum málum. Við höfum rætt í efnahags- og viðskiptanefnd hvernig hægt væri að útfæra það, því að það er mjög mikilvægt fyrir allan almenning í landinu að fá á hreint hvort verðtryggingin sé lögmæt eða ekki. Ef hún reynist vera lögmæt getum við farið í (Forseti hringir.) að flýta okkur að afnema hana.