141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

fundur með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi vestra.

[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur sýnt fullkomið tómlæti og skeytingarleysi og mér liggur við að segja dónaskap í samskiptum sínum við sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. 21. nóvember 2011 óskuðu sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra eftir fundi og samstarfi við hæstv. ríkisstjórn um sértækar aðgerðir vegna byggðavanda sem sannarlega er til staðar á svæðinu. Þegar ekkert svar hafði borist tveimur mánuðum síðar, 31. janúar 2012, var málið ítrekað.

Í febrúar árið 2012 tók ég þetta mál upp á Alþingi og spurði hæstv. forsætisráðherra eftir þessu og í framhaldi af því var haldinn óformlegur fundur með sveitarstjórnarmönnunum um málið. Í framhaldi af því var haldinn sérstakur fundur með fjórum ráðherrum 20. mars 2012. Síðan lögðu sveitarstjórnarmenn fram hóflegar tillögur sem ætlunin var að einstök ráðuneyti mundu skoða. Það var svo í tölvupósti 21. júlí 2012 sem sveitarstjórnarmönnunum var gefinn kostur á að koma með ábendingar um svör ráðuneytanna en þau svör voru ákaflega rýr, þ.e. þau þeirra sem ekki voru beinlínis neikvæð. Síðan hefur ekkert gerst þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn hafi gengið eftir svörum, þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn hafi verið í sambandi við ráðuneytin hefur nákvæmlega ekkert gerst.

Það er liðið eitt og hálft ár síðan sveitarstjórnarmennirnir hófu þessa málaleitan og svörin eru nánast engin. Það er ekki hirt um að svara beiðnum þeirra um fundi og um það hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á þessu? Er það plagsiður í ráðuneytum að koma þannig fram við þá sem eiga erindi við ráðuneytin eða er þetta undantekning? Er talin ástæða til að taka sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra einhverjum sérstökum tökum? (Forseti hringir.) Er ekki ætlunin að svara þeim með neinum hætti? Stendur ekki til að bregðast við ábendingum þeirra og óskum?