141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla þingmála.

[11:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þær gagnrýnisraddir sem hér hafa komið fram um það mál sem var rætt hér síðast og var á dagskrá í gær, um forvirkar rannsóknarheimildir. Þetta er mál sem Siv Friðleifsdóttir er 1. flutningsmaður að. Þetta er líklega í annað eða þriðja sinn sem málið er lagt fram og kemst loks inn í þingsal. Málið snýr að því að íslenska lögreglan fái sambærilegar heimildir og lögreglan annars staðar á Norðurlöndum. Það er í raun með ólíkindum að við skulum ekki hafa klárað það í gær.

Við þingmenn höfum oft kallað eftir því að ráðherrar séu viðstaddir umræðu. Við því er stundum orðið og stundum ekki, en það er ágætt að benda á að þegar frumvarp um sjávarútvegsmál var flutt hér — og þá er ég að tala um lagafrumvarp — fyrir um ári síðan flutti staðgengill sjávarútvegsráðherra það mál en ekki ráðherra sjálfur þannig að ekkert óeðlilegt var þó að staðgengill innanríkisráðherra hefði verið viðstaddur umræðu sem var á dagskrá hér í gær.

Ég hvet forseta eindregið til að setja þetta mál sem fyrst á dagskrá aftur þannig að hægt verði að ljúka því. Þetta er mikilvægt mál fyrir lögregluna, það er mikilvægt fyrir öryggismál Íslendinga. Við eigum öll að standa að þessu máli.