141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hlutafélög njóta þeirra réttinda að hafa takmarkaða ábyrgð eigenda sinna á skuldbindingum sem stofnað er til. Við Íslendingar eigum heimsmet í fjölda hlutafélaga miðað við höfðatölu og er það einn af lærdómunum af efnahagshruninu hér að nauðsynlegt er að upplýsa um eignarhald á slíkum félögum þannig að hægt sé að rekja ýmsa viðskiptagjörninga og tengsl félaga innbyrðis. Hér er stigið mikilvægt skref til að auka upplýsingar um eigendur hlutafélaga og tryggja betri skil á ársreikningum til ríkisskattstjóra.