141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég gleymdi að nefna áðan tvær breytingartillögur. Önnur er frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún ætlar að reyna að finna raunverulega eigendur hlutarins. Það held ég að sé draumsýn og fáist aldrei fram vegna þess að við erum með fjölda fyrirtækja sem staðsett eru úti í heimi og eru jafnvel með milljón hluthafa sem eiga í hlutafélögum hér, þannig að það getur orðið dálítið langsótt að finna hinn raunverulega eiganda. Þess vegna get ég ekki stutt þá tillögu. Hins vegar væri hún afskaplega góð ef þetta væri framkvæmanlegt þannig að ég mun sitja við afgreiðsluna um þá tillögu.

Síðan er tillaga frá hv. þingmanni og formanni nefndarinnar, Helga Hjörvar, sem ég mun styðja. Ég tel að hún sé til bóta, að fjárhæðarmörk sem félög, sem eru undir þeim mörkum, geta notað til þess að þurfa ekki að uppfylla eins strangar kröfur verði hækkuð.