141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í atkvæðaskýringum hefur komið fram að hv. þingmenn tala um mjög stór mál sem mjög mikilvægt er að taka á og fá niðurstöðu í en því miður ná þessi frumvörp eins og þau eru úr garði gerð ekki þeim markmiðum sem hv. þingmenn telja að þau geri. Við eigum eftir að fara almennilega í málið ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við erum sammála um. Falskt öryggi er verra en ekki neitt.

Við vitum t.d. ekki enn hvort þær heimildir sem fullyrt er í nefndinni að séu til staðar til að fylgjast með eignarhaldi hjá Fjármálaeftirlitinu séu nýttar.

Ég get verið sammála mörgu sem fram kemur í atkvæðaskýringum en því miður á ekki að greiða atkvæði um þá hluti sem hér er lagt upp með að verði afgreiddir. Við eigum eftir að vinna vinnuna (Forseti hringir.) og vonandi vinnst okkur tími til að gera það sem allra fyrst. En ég get ekki stutt frumvarpið eins og það er og (Forseti hringir.) mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það.