141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talar um að þessi breytingartillaga sé draumsýn. Ég geri þá ráð fyrir því að þegar hv. þingmaður samþykkti lög um peningaþvætti hafi hann áttað sig á því að þau lög eru ekki nein draumsýn því að í þeim er kveðið á um að fyrirtækjum beri að upplýsa Fjármálaeftirlitið um hverjir séu raunverulegir eigendur fyrirtækja á fjármálamarkaði. Hægt er að nota skilgreiningu laga um peningaþvætti til að ná til raunverulegra eigenda.

Það eru fyrst og fremst vogunarsjóðir og hrægammasjóðir sem hafa hag af því að fela eignarhald sitt. Þessir sjóðir eru nú komnir með víðtækt eignarhald í íslensku atvinnulífi og með því að samþykkja breytingartillöguna munum við draga úr ávinningi þeirra af því að vera hér á landi.