141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[11:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég sé það nú að þetta frumvarp verður væntanlega samþykkt langar mig til umhugsunar, þótt ekki væri nema til þess, að beina því til hv. þingmanna að í raun og veru er verið að hunsa þær ábendingar sem koma fram hjá umsagnaraðilum. Hverjir skyldu það vera sem vara við því að fara í þessa vegferð út af faglega þættinum og því að markmið laganna nái ekki fram, þ.e. um umhverfið, að rannsókn á slysum geri að verkum að hægt verði að draga úr slysahættu? Það er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra- og málmiðnaðarmanna og síðast en ekki síst Slysavarnafélagið Landsbjörg.

Þeir hv. þingmenn sem samþykkja þessi lög segja: Við vitum betur. Er það svo, virðulegi forseti? Nei, það er verið að hunsa ábendingar þessara aðila, það er alveg skýrt hér í því sem kemur fram.