141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[11:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það gerist hér iðulega í pólitískum málum að meiri hluti þingsins ákveður að hunsa eða gera lítið með álit fagaðila vegna þess að baki er pólitísk sannfæring fyrir því að málið verði að ganga fram. Það mál sem hér er til afgreiðslu er ekki þess eðlis. Hér er um að ræða mjög faglegt starf, rannsóknir á slysum á sjó og landi og í lofti. Það er því enginn pólitískur ágreiningur í málinu. Allir þeir sem hafa veitt umsagnir, þeir sem gerst til þekkja og hafa virkilega og í alvörunni vit á þessum málum, hafa varað okkur alþingismenn við því að fara þessa leið.

Virðulegi forseti. Hvers vegna í ósköpunum ætla menn í svona máli, sem er ekki pólitískt átakamál, að hunsa aðvaranir og ráðleggingar þeirra sem best til þekkja? Ég segi nei, virðulegi forseti, og það veldur mér vonbrigðum að sjá hversu margir hv. þingmenn ætla sér að segja já í svona máli.