141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ekki sé stigið skref í að þrengja verulega að Ríkisútvarpinu eða afmarka hlutverk þess frá því sem verið hefur hvað varðar innihald dagskrár eða það verkefni sem því er úthlutað. Það er ekki rétt að við höfum ekki rætt það í nefndinni. Við fórum yfir umræðuna og veltum fyrir okkur þeim möguleikum en það voru reyndar engar tillögur, þannig að það sé sagt, sem komu frá nefndarmönnum um neinar breytingar á þeim ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins um hvernig ætti að þrengja það ef menn vildu stíga slík skref. Ég er fyrir mitt leyti áhugasamur um að sú umræða fari fram og menn velti fyrir sér hvernig það mundi líta út en ég hef ekki heyrt, og það kom aldrei fram í umfjöllun nefndarinnar um málið, neinar tillögur í því efni.

Hv. þingmaður spyr um fyrirmynd að þeirri leið sem er valin hér. Ég hef fyrst og fremst þá skoðun að Ríkisútvarpið eigi að þjóna íslenskum veruleika eins og hann er. Það á að vera fyrirmyndarfjölmiðill að því leyti að hann hafi metnað til að sinna innlendri dagskrárgerð, sinna íslenskri menningu úti um allt land en sérstaklega þó rækja lýðræðishlutverk sitt í því efni að flytja hlutlægar og ábyrgar fréttir af samfélagsmálum, gæta þar jafnræðis milli ólíkra sjónarmiða og hafa í huga að Ríkisútvarpið hefur í ljósi útbreiðslu sinnar og mikils stuðnings meðal þjóðarinnar aðstöðu sem enginn annar fjölmiðill í landinu hefur til að koma góðu til leiðar, ef svo má segja, í sambandi við vandaða umfjöllun um samfélagsmálefni. Það er kannski kjarni málsins. RÚV þarf að endurspegla og gefa almenningi betri innsýn í íslenskan veruleika eins og hann er í dag en ekki endilega taka mið af (Forseti hringir.) af erlendum fjölmiðlum.