141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að ég geri mér ekki alveg nógu mikla grein fyrir mikilvægi reksturs Ríkisútvarpsins. Ég vil benda hv. þingmanni á að ég geri mér alveg fulla grein fyrir mikilvægi Ríkisútvarpsins og ég sagði það áðan, með fullri virðingu því góða starfsfólki sem þar er. En þetta er nú einu sinni einn og hinn sami ríkissjóður sem greiðir til Ríkisútvarpsins, hvort sem það er í gegnum mörkuð gjöld eða á fjárlagaliðum, og sem borgar líka fyrir heilbrigðisþjónustuna, Landspítalann og það sem þar fer fram. Það er sami ríkissjóður.

Þegar menn tala um markaðar tekjur þá er þetta orðinn algjör frumskógur og algjör ófreskja í fjárlögunum. Það eru yfir 100 milljarðar í mörkuðum tekjum sem Alþingi kemur — að minnsta kosti að mínu mati — allt of lítið að í ákvörðunum um hvernig er ráðstafað. Mörg dæmi eru um að menn fái ekki allan markaða tekjustofninn. Mér er það því algjörlega óskiljanlegt að á sama tíma og við stöndum í þeim sporum að geta ekki hlúð að þeim innviðum sem við viljum gera skuli vera farið í þessa vegferð. Það er mér algjörlega óskiljanlegt.