141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili fullkomlega þeim skoðunum með hv. þingmanni að of mikið er um markaða tekjustofna í fjárlögum sem samþykkt eru frá þingi. Ég tel hins vegar að önnur sjónarmið gildi um Ríkisútvarpið, þar sé mun viðkvæmara en í öðrum tilvikum að löggjafinn geti kippt til dæmis fjárveitingum til Ríkisútvarpsins til baka, meðal annars í pólitískum tilgangi þegar það hentar stjórnvöldum á hverjum tíma illa að Ríkisútvarpið gangi of langt í því að miðla fréttum af því hvernig stjórnvöld haga sér á hverjum tíma. Að stjórnvöld geti með einföldum hætti í raun og veru veikt Ríkisútvarpið með einni ákvörðun við gerð fjárlaga. Ég tel því einfaldlega að þetta sé kannski undantekningin sem sanni regluna, við eigum að draga úr mörkuðum tekjustofnum en við verðum, ef við viljum varðveita sjálfstæði þeirrar stofnunar og virða lýðræðishlutverk hennar, að hafa skilning á því að (Forseti hringir.) mikilvægt sé að þessi tekjustofn, útvarpsgjaldið, renni óskiptur til Ríkisútvarpsins.