141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega fyrir síðasta svar hans við andsvari. Þar sagði hann að hægt væri að hafa áhrif á stefnu og stjórnun þessa ríkisfjölmiðils. Það vill nefnilega svo til að fyrir nokkrum árum var rætt mikið um eignarhald á fjölmiðlum. Flutt var fjölmiðlafrumvarp sem lenti í umræðum sem aldrei fyrr, en þá voru reyndar núverandi stjórnarþingmenn í stjórnarandstöðu, og það frumvarp var síðan dregið til baka. Þar voru menn að vandræðast með það að eigandi fjölmiðils gæti haft svo mikil áhrif á stefnu hans og að upplýsa þyrfti um eigendur og allt svoleiðis. Nú vill svo til að sá fjölmiðill sem við ræðum nú um, þar er aðeins einn eigandi, frú forseti, og tekið er sérstaklega fram að þessi eini eigandi eigi að vera það um aldur og ævi. Í 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins.“

Og aldrei má selja það. Það er því einn eigandi. Starfsmenn Ríkisútvarpsins vita að fjármálaráðherra getur aukið eða dregið úr fjárveitingum til þeirra og hefur gert það. Þeir vita eins og allir aðrir hver borgar saltið í grautinn hjá þeim. Menntamálaráðherra kemur reyndar þarna inn í líka, en það er sem sagt ríkisstjórnin í heild sinni sem menn þurfa að hafa góða. Starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem eflaust hafa mikinn metnað til að vera óháðir og annað slíkt, eru því á þann hátt háðir eiganda sínum, hvort starfsemi verði aukin, framleiðsla verði aukin eða dregin saman, fólki sagt upp, jafnvel mér, þ.e. starfsmanninum. Það þýðir að þeir munu fjalla nettar og varlegar um gerðir ríkisstjórnarinnar.